145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[13:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er að koma til atkvæða efnislega sambærileg tillaga og var felld fyrr í atkvæðagreiðslunni frá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um að það komi stoð til þess inn í búvörulög að fella niður, eða segjum að það væri orðað þannig að lækka eða fella niður, greiðslur til aðila sem ítrekað og alvarlega hafa gerst brotlegir við lög um dýravelferð. Eins og hér kom fram áðan var ákvæði af þessu tagi í upphaflegu frumvarpi um dýravelferð en það var fellt út með þeim rökum að það þyrfti að vera til staðar lagastoð í sérlögunum sem fjölluðu um búvörusamning til þess að þetta mætti framkvæmast. Er þá ekki sjálfgefið að gera það? Eða hver ætlar að standa í þessum ræðustól og rökstyðja þörfina á því að ríkið styrki ár eftir ár með peningum til framleiðslu einhvern sem fer með húsdýr og fer illa með þau? (Gripið fram í: Enginn.) Það getur ekki verið að nokkur vilji hafa þann málstað. Ég skora á hv. atvinnuveganefnd að taka þetta til meðferðar milli 2. og 3. (Forseti hringir.) umr. Við hljótum að geta sameinast um útfærslu á þessu sem setur betri svip á þessi mál.