145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég byrji á því síðasta. Ég tel að tollasamningur muni nú ekki hafa úrslitaáhrif á heilbrigði þjóðarinnar en líkt og ég kom inn á í ræðu minni áðan þá tel ég það galla við samninginn hvað hann lítur þröngt á málin, þ.e. þar er aðallega eða einvörðungu horft á málin út frá viðskiptalegu sjónarmiði en ekki teknar inn umhverfislegar eða samfélagslegar breytur og það getur þar með haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Ég tel að þetta þurfi að greina miklu betur áður en við skrifum undir hann.

Það kom fram hjá sóttvarnalækni að í framtíðinni muni aukast að skoðuð verði áhrif sýkinga sem borist geta á milli landa. Ég skal ekki að segja, það kann vel að vera að það muni í framtíðinni taka til fleiri þátta en matvæla. Ég skal vera alveg hreinskilin með það að ég held að ef við viljum nálgast málin heildrænt eins og ég vil reyna að gera þá þurfum við, þegar kemur að loftslagsmálunum, ekki bara að hugsa um það hvað við borðum og hvernig matvælin eru framleidd heldur einnig margt (Forseti hringir.) fleira í siðum okkar og venjum og þar á meðal (Forseti hringir.) kannski hvernig við ferðumst.