145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

skattafsláttur af ferðakostnaði til og frá vinnu.

831. mál
[16:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa umræðu. Ég vék að því í máli mínu að það mætti gjarnan skoða aðrar leiðir og vil hér koma inn á nokkrar þeirra. Ég tel t.d. að í því kjördæmi sem hv. þingmaður starfar sé óumdeilt að kallað er eftir samgöngubótum. Þær einar og sér geta komið til móts við sjónarmið. Ég gæti nefnt Vestfirði í því sambandi, sérstaklega sunnanverða. Það væri gott að geta komið til móts við auknar samgöngubætur á svæðinu, því svigrúmi sem við kunnum að hafa væri vel varið í að styrkja samgöngukerfið. Fjarskipti skipta sömuleiðis verulegu máli í þessu sambandi.

Hér er sérstaklega gert að umtalsefni það fólk sem býr á landsbyggðinni og þarf um langan veg að fara. Við höfum verið með vörugjaldakerfi fyrir bifreiðar á Íslandi sem leggst sérstaklega þungt á þau svæði þar sem menn eru almennt líklegri til að vera á stærri bifreiðum, jafnvel fjórhjóladrifnum, jeppum o.s.frv., vegna færðar yfir vetrarmánuðina, en í mörgum tilvikum eru það einmitt þær bifreiðar sem lenda í hæsta vörugjaldaflokknum, eða allt að 65% vörugjöldum. Það er m.a. af þeirri ástæðu sem ég hef skipað nefnd til þess að taka til endurskoðunar vörugjöld og aðrar álögur á bifreiðar í landinu. Eldsneyti og álögur á eldsneyti koma líka til sögunnar í þessari umræðu að mínu áliti, en við Íslendingar höfum verið með vörugjaldakerfi fyrir eldsneyti sem hefur jafnast á við þau kerfi í heiminum þar sem álögur á eldsneyti eru hvað mestar. Við erum með einna hæst eldsneytisverð í Evrópu. Þó að við séum ekki á toppnum jöfnumst við á við það sem hæst gerist. Þetta eru allt álögur sem hitta fyrir þá sem hv. þingmaður hefur verið að horfa sérstaklega til.