145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði hiklaus tækifæri. Með tillögunni sem nú er lögð fram til þingsályktunar er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Samningurinn tekur til viðskipta með óunnar landbúnaðarvörur og viðskipta með unnar landbúnaðarvörur og felur í sér umtalsverða aukningu á tollfrjálsum innflutningskvótum auk þess sem tollar eru felldir niður á fjölda tollskrárnúmera. Með samningnum er samið um niðurfellingu tolla og aukinn kvóta á innflutning og útflutning á landbúnaðarafurðum. Samningurinn felur í sér hagsbætur fyrir neytendur með auknu vöruúrvali og lægra verði auk þess sem hann felur í sér tækifæri fyrir íslenska framleiðendur.

Ljóst er að mismunandi sjónarmið hafa komið fram um samninginn og hugsanleg áhrif hans. Ég tek undir með meiri hlutanum þegar hann áréttar að innflutningskvótar sem samið er um eru mjög svipaðir árlegum innflutningi undanfarin tvö ár, enda sjáum við það á öllum tölum sem við höfum verið að skoða er varða innflutning. Nauðsynlegt er þó að tryggja að stoðum sé ekki kippt undan matvælaframleiðslu í landinu. Matvælaöryggi á Íslandi hefur verið mikið, sýkingar eru fátíðar og gripið er fljótt og vel inn í þegar þær koma upp. Mikilvægt er að tryggja fæðuöryggi Íslendinga og horfa til allra þátta og áhrifa af samningnum. Þess vegna tel ég mikilvægt að farið verði í aðgerðir í tengslum við fyrirliggjandi samning og þá að þær séu til þess fallnar að leiðrétta skekkta samkeppnisstöðu og skapa jafnstöðu íslensks landbúnaðar og íslenskrar framleiðenda við erlenda keppinauta.

Eins og þingheimi er kunnugt um skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp í apríl til að kanna áhrif tollasamnings við Evrópusambandið og nýrra aðbúnaðarreglugerða frá júní 2016. Starfshópnum var ætlað að meta áhrif samningsins á einstakar búgreinar og þó einkum svína- og alifuglarækt, sem og að meta kostnað og áhrif nýrra reglugerða um velferð búfjár á þær búgreinar. Hópurinn hefur lagt fram tillögur í átta liðum þar sem tekið er á mörgum af þeim álitaefnum sem gerð er grein fyrir í áliti meiri hlutans sem lagt hefur verið nú fyrir, m.a. um tollkvóta, jöfnun samkeppnisstöðu innlendra aðila og reglur um heilbrigðiskröfur til landbúnaðarvara.

Ég tek heils hugar undir með meiri hluta atvinnuveganefndar sem tekur undir þessar tillögur. Auk þess ber ég fullt traust til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann fari gaumgæfilega yfir þær og skoði sérstaklega upprunamerkingar og lyfjanotkun.

Annars þakka ég meiri hluta utanríkismálanefndar fyrir vel unnin störf og verður gott þegar búið verður að klára þetta mál.