145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir umfjöllunina um málið og ágæta yfirferð yfir umsögn Jafnréttisstofu, sem auðvitað skiptir miklu máli. En spurningin sem ég vil beina til hv. þingmanns snýr að því sem fram kom fyrir nefndinni að í einstökum verkefnum eru tiltekin þau ráðuneyti sem ábyrg eru fyrir framkvæmd verkefnanna, en það er ekki þar með sagt að ráðuneytin sjái um alla framkvæmd heldur geta ráðuneytin falið einstökum stofnunum umsjón og verkefnisstjórn.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að ábendingar Jafnréttisstofu geti nýst velferðarráðuneytinu þegar kemur að framkvæmd verkefnanna varðandi það hverjir taka þátt í þeim, stýra verkefnum og bera ábyrgð á því að þeim verði hrint í framkvæmd, því að það gerist ekki endilega innan ráðuneyta eins og við þekkjum.

Mig langar líka að nefna annað sem hv. þingmaður kom inn á. Í 1. kafla var fyrirvari um það ef fjárframlög fengjust til verkefnisins, en það var ein af þeim tæknilegu breytingum sem nefndin lagði til að féllu út, þ.e. þetta með fyrirvarann um ef fjárframlög fengjust til verkefnisins. Í rauninni var það þarna vegna mistaka á vinnslustigi og átti þess vegna ekki að fylgja með inn í þingið. Það kom fram á síðustu stundu, þannig að það getur vel verið að framsögumanni hafi láðst að gera nægilega vel grein fyrir því í ræðu sinni.