145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér lendi ég aftur í sama vanda og svo oft þegar kemur að staðgöngumæðrun án þess endilega að hafa sterka skoðun á því sjálfur hvort mér finnist að hún eigi að vera heimil eða ekki. Ég fæ ekki betur séð en að eina leiðin til þess í raun og veru að banna staðgöngumæðrun sé með því að láta það bann á einhvern hátt bitna á börnunum. Ég skil hreinlega ekki alveg hvernig við getum bannað þetta án þess að það verði tilfellið. Þess vegna velti ég þessu fyrir mér, eins og ég fór aðeins yfir í andsvari við annan hv. þingmann.

Tilgangur þessa frumvarps er að stuðla að jafnrétti barna einstæðra foreldra, eitthvað sem ég veit að hv. þingmaður aðhyllist og ég trúi því að allir hér í þessum þingsal og þótt víðar væri leitað séu sammála um, en ef við ætlum að halda að okkur höndunum þegar slík frumvörp eru lögð fram á þeim forsendum að við séum andvíg staðgöngumæðrun, hvenær mun andstaða okkar við staðgöngumæðrun sjást nema þegar hún er andstæð réttindum eða hagsmunum barnanna? Það er það sem ég fatta ekki. Ég skil alveg að það eru stórar siðferðislegar spurningar á bak við staðgöngumæðrun, spurningar sem ég kann ekki endilega svörin við sjálfur. En ég skil spurningarnar gagnvart jafnræði barna og hagsmunum þeirra og finnst það hljóta að þurfa að ganga fyrir og eiga að ganga fyrir. Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig við mundum framfylgja banni við staðgöngumæðrun án þess að lenda aftur og aftur í svona vandamálum, hvenær svo sem við ræðum frumvarp sem er hugsað til þess að stuðla að nokkurs konar jafnrétti barna sem eru fædd með aðstoð staðgöngumóður.

Ég velti svolítið mér hvernig hv. þingmaður sjái fyrir sér að hægt sé að ná þessum markmiðum án þess hreinlega að leyfa þessu að fara í gegn þrátt fyrir andstöðu okkar við staðgöngumæðrun.