145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir að koma í andsvar við mig þó að hún hafi ekki þessar tölur. Það hefði annars verið mjög áhugavert að heyra þær. Mér finnst málið eiginlega snúast um tvennt. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort við getum með einhverjum hætti, ef vilji er til þess og ef þeir feður sem hér um ræðir eru illa stæðir eða eitthvað slíkt, fengið að vita hversu margir aðilar þetta eru og hvort við getum brugðist við þeim tilteknu aðstæðum frekar en að opna á þetta alfarið. Um leið og við opnum á þetta finnst mér að við séum að gefa grænt ljóst á það í fyrsta lagi að það sé í lagi að fara til útlanda og sækja sér barn í gegnum staðgöngumæðrun, í annan stað að faðir fái klárlega að koma hér inn í landið með barn sem komið er til með þeim hætti sem íslensk lög segja að sé ólöglegur, og í þriðja lagi að við munum um leið fella það undir þessi barnalífeyrislög.

Þess vegna hefði ég haft gaman af að vita hversu margir aðilar það eru sem um ræðir sem sem hér er verið að bregðast við, af því að tilgangurinn með þessu frumvarpi virðist vera segja að ef maður ferð til útlanda og eignast barn með hjálp staðgöngumóður þá fellur maður inn í kerfið. Punktur. Þá fær barnið að koma hér inn þrátt fyrir að þetta sé ólöglegt og það fær að ganga beint inn í kerfið. Við þurfum bara að gera upp við okkur: Er þetta leiðin sem við viljum fara? En fyrst og síðast væri áhugavert að vita hversu margir þessir aðilar eru.