145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

aukinn stuðningur vegna tæknifrjóvgana.

20. mál
[21:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni. Ég ætla rétt aðeins að koma inn í umræðuna um þetta mál. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls, er með framsögumanni á málinu. Ég var einmitt að lesa málið sjálft, veit ekki hvort allar upplýsingar hafa verið uppfærðar. Að minnsta kosti sé ég í nefndarálitinu að fyrirtækið hefur breytt um nafn, úr ART Medica yfir í IVF Klíníkin Reykjavík. Svo hefur heildarkostnaður við glasafrjóvgun bara frá því að þetta frumvarp var lagt fram farið úr 314 þús. kr. í 455 þús. kr. Það er töluverð hækkun. Svo er reyndar tekið fram að gjaldskráin hafi hækkað frá og með 1. september 2015, þ.e. í frumvarpinu kemur fram að þá séu þetta í kringum tæpar 414 þús. kr. (Gripið fram í: Í þingsályktuninni.) Í þingsályktunartillögunni, fyrirgefðu, ekki frumvarpinu. Við sjáum því að þetta fer greinilega ört hækkandi og er mjög dýrt. Eins og rakið er í frumvarpinu, miðað við kostnaðinn eins og hann er í dag og nái frumvarpið fram að ganga, þá lagast það auðvitað … (Gripið fram í: Þingsályktun.) Þingsályktun, ég tala alltaf um frumvarp, þetta er þingsályktunartillaga. Nái tillagan fram að ganga þá breytist þetta þannig að fólk getur fengið niðurgreiðslu á fyrstu meðferð sem er auðvitað afar mikilvægt. Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni fór frjósemi á Íslandi niður fyrir 2,1 barn á konu árið 2013, en það er sú viðmiðunartala sem þarf að vera svo að þjóðin nái að standa í stað varðandi fólksfjölda. Þegar tillagan er lögð fram hafði frjósemismeðferðum fækkað um 10% síðustu missiri. Það virðist að mestu leyti vera vegna greiðsluþátttökunnar, þ.e. að fólk hafi ekki tök á því fjárhagsins vegna að fara í fyrstu meðferð.

Það lá ekki fyrir þegar málið var lagt fram hvort því væri öðruvísi farið með þá sem koma utan af landi. Við ræddum það aðeins við fyrri umr. og einnig ferðakostnað. Ég er auðvitað ánægð með að hér er lagt til að greiðsluþátttaka nái til fyrstu meðferðar, þ.e. þegar farið er í fyrsta sinn í glasa- eða smásjárfrjóvgun. Nefndin lagði til að fresta eða setja til hliðar 3.–5. tölulið og ráðherra hvattur til að vinna með það áfram. Í 4. tölulið er ljóst að aðrir sjúklingar af landsbyggðinni njóta ekki niðurgreiðslu af ferðakostnaði og út frá jafnréttissjónarmiðum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fella bæri þann lið brott.

Það kemur hins vegar fram í þingsályktunartillögunni að reglurnar sem eru í gildi nú um þátttöku sjúklinga í ferðakostnaði vegna meðferðar eiga aðeins við um þegar niðurgreidda meðferð er að ræða. Má þá skilja sem svo að nefndin, um leið og hún leggur til að samþykkt verði að fyrsta meðferð verði niðurgreidd, taki undir að þá sé ferðakostnaður vegna fyrstu ferðar líka niðurgreiddur, hann falli undir það? Það hlýtur eiginlega að gerast, mér finnst það alla vega, kannski gerist það sjálfkrafa, en ég átta mig ekki á því hvort það hangir saman.

En það er auðvitað ánægjulegt að þetta verði gert eins og ég segi því að ekki viljum við vera eins og í Kína þar sem fólki er nánast ekki heimilt að eiga fleiri börn nema eitt, af því að það stóð að ef maður ætti eitt barn fyrir þá fengi maður ekki niðurgreiðslu. Ég rak bara augun í það sem sagt var um ferðakostnaðinn af því að tillagan segir þetta og kannski fellur hann þá bara beint undir niðurgreiðsluna um leið, ef þetta verður að lögum þá gerist það af sjálfu sér.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, ég ætlaði bara rétt aðeins að koma inn í umræðuna, og vona svo sannarlega að þetta verði staðfest.