145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

aukinn stuðningur vegna tæknifrjóvgana.

20. mál
[21:27]
Horfa

Frsm. velfn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir góða ræðu og sömuleiðis fyrir meðflutninginn og stuðninginn við málið frá upphafi. Þetta er afar góð spurning. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að taka þennan lið ekki með í afgreiðslu málsins vegna þess að það eru sérstakar reglur sem gilda hjá Sjúkratryggingum um ferðakostnað og nefndin taldi ekki rétt að taka sjúklinga með þennan sjúkdóm út úr því mengi. Þetta varð því niðurstaðan. Mér sem 1. flutningsmanni og mér fannst mjög mikilvægt ef ég á að segja alveg eins og er að þetta mál kæmist í gegnum nefndina með einhverjum hætti. Aðalatriðið var náttúrlega að afgreiða þau tvö atriði sem nefndin sá sér fært að afgreiða í góðri sátt. Þetta var því sameiginleg niðurstaða. Nú gilda reglur um ferðakostnað hjá Sjúkratryggingum Íslands og það hefði verið harla einkennilegt að leggja til að ákveðinn sjúklingahópur félli ekki undir þær reglur.