145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[10:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Um þetta erum við þá sammála, ég og hv. þingmaður, að nauðsynlegt er að þverpólitísk samstaða ríki um slíkar aðgerðir og um leið þarf að hafa í huga að það er ekki langur tími sem menn hafa fyrir framan sig til að grípa til aðgerða. Þess vegna fagna ég þessum viðbrögðum hv. þingmanns. Ég tel að það sé vel á færi þessa þings að hér verði flutt þingsályktunartillaga og hún samþykkt þar sem verði þá kveðið á um verkefni slíkrar nefndar og kveðið á um aðkomu þeirra flokka sem nú eiga sæti á Alþingi.

Ég vil leggja til, virðulegi forseti, að líka verði hugað að því í þingsályktunartillögunni að þeir flokkar sem koma síðan nýir inn á þingið að kosningum loknum gætu komið að þeirri vinnu. En ég vil að tíminn sé notaður núna næstu vikurnar og mánuðina til þess að slík greiningarvinna liggi fyrir. Ég efast ekki með nokkrum hætti um fullyrðingar forsvarsmanna fjölmiðlanna að rekstrarstaðan er orðin allt að því óbærileg hjá mjög mörgum þeirra. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni hvað það varðar að ekki er nóg að horfa bara á hluta fjölmiðlaflórunnar, við þurfum að horfa á hinn breiða markað, á alla miðlana, bæði stóra og smáa, bæði þá sem gefa út á pappír (Forseti hringir.) og eru á netinu, vegna þess að við þurfum á öflugum fjölmiðlum að halda og ég tel (Forseti hringir.) að það sé algjörlega þverpólitísk samstaða um þá skoðun.