145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[15:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef talað fyrir því og vil veg smábátaútgerðar í landinu sem mestan og vil gera allt sem hægt er að gera til þess að styrkja þann útgerðarflokk ásamt því að útgerðin heilt yfir hafi möguleika á því að vera fjölbreytt. Í dag greiðir uppsjávarflotinn veiðigjald, hann greiðir ekki þá viðbót sem smábátarnir greiða. Það er engin sanngirni í því. Mér fyndist alveg eðlilegt að menn sætu þar við sama borð og að smábátasjómenn greiddu eingöngu veiðigjald. Ef eitthvað er ættu þeir stóru og sterku, sem hagnast auðvitað miklu meira, að borga til samræmis við það alveg eins og tekjuskatt; fólk borgar eftir efnum og aðstæðum og hversu mikill hagnaðurinn er. En það er ekki verið að horfa til þess í þessum efnum hversu hagnaðurinn er mikill á hvern smábát eða eitt stórt uppsjávarskip. Við getum deilt því niður og ég tel að hlutfallslega greiði uppsjávarskipin miklu minna í ríkiskassann en þau ættu að gera. Það væri hægt að lækka veiðigjaldið sem smábátasjómenn greiða. Þeir græða ekki á tá og fingri eins og uppsjávargeirinn hefur gert í gegnum árin. Gott og vel, bara að hann skili sínu til samfélagsins.

En stefna okkar vinstri grænna í sjávarútvegsmálum er rótgróin. Við höfum talað fyrir því, og má lesa um það í þeirri góðu stefnu, að þrískipta leiðinni félagslega og byggðatengja og úthluta annaðhvort með leigu eða uppboði. Það liggur allt fyrir og er ekkert nýtt, að innkalla aflaheimildir (Forseti hringir.) á ákveðnum tíma og úthluta aftur.