145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[16:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það eigi að vera eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar, umbótastjórnar, velferðarstjórnar og stjórnar sem lætur sig málefni landsbyggðarinnar varða, að taka á fiskveiðistjórnarmálunum og að við gerum það af krafti frá fyrsta degi. Ég tel að þeir flokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu geti sameinast um það og öll góð viðbót við það er af hinu góða. Þar er verk að vinna því að það óréttlæti sem fylgt hefur fiskveiðistjórnarkerfinu hefur höggvið stórt skarð í margar byggðir landsins. Það var alveg með ólíkindum að framsal skyldi líka sett á makrílinn því að hann er sú tegund sem við hefðum virkilega getað farið með með öðrum hætti og útdeilt með öðrum hætti en að setja hann strax inn í aflahlutdeildarkerfið í kjölfarið. Það sýnir sig líka nú þegar að hinar stóru útgerðir eru farnar að kaupa upp aflaheimildir í makríl af ísfisktogurum og af hinum minni togurum, og þeir stærstu í uppsjávargeiranum eru farnir að draga til sín og kaupa aflaheimildir, sem var fyrirséð.

Fjöldinn allur af minni bátum fékk úthlutað í samræmi við veiðireynslu síðustu þriggja ára. Þeir voru ekki búnir að afla sér það mikillar veiðireynslu að þeir fengu litlu úthlutað og treystu sér ekki til að halda áfram að gera út á makríl en voru þó búnir að kosta miklu til því að það kostar fleiri hundruð þúsund að útbúa sig á makríl. Það er því annað en að segja það. Vonir hafa því brostið hjá þeim útgerðarmönnum sem sáu möguleika í því að styrkja sig á markrílveiðum.

Ég mun styðja allt gott sem kemur frá hv. þingmanni og Samfylkingunni til þess að gera gjörbreytingar á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við. (ÖS: Slegið.)