145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[16:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst og fremst að endurtaka þau orð sem hv. þm. Kristján L. Möller fór með áðan, að þetta sé ill nauðsyn. Mér finnst sjálfum skrýtið að ræða á þinginu hvað sé sanngjarnt eða eðlilegt að útgerðin borgi, hvort það séu 8 kr. eða einhver annar fjöldi króna. Mér þætti eðlilegra ef farin væri leið sem byggðist á markaðsverði og væri þá útkljáð með markaðsleiðum frekar en að við ákveddum þetta hérna út frá aðstæðum hverju sinni. Það er í fyrsta lagi tvímælalaust mun hægara ferli og í öðru lagi er það alltaf háð pólitík en ekki köldu mati markaðarins á því hvers virði aflaheimildirnar eru. Þetta er eitthvað sem mér finnst alveg þess virði að nefna þegar þessi mál ber á góma, þótt ég ætli reyndar ekki að nýta allan tíma minn í þetta annars ágæta mál.

Mig langar líka að vekja athygli á 5. lið stefnu Pírata sem fjallar um að handfæraveiðar verði frjálsar þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu, svo er greinargerð sem ég ætla ekki að þylja upp. En það er að mínu mati eitt af því mikilvægasta sem hægt er að gera til þess að losa sjómenn á landsbyggðinni út úr því sem þeir upplifa, að þeirra sögn þegar ég hef hitt þá marga, sem kúgunarsamband við kvótakerfið.

Fyrir utan þá löngu umræðu sem við getum átt um kvótakerfið sjálft, aflamark og uppboðsleiðir og þar fram eftir götunum, þá snýst þetta ekki aðeins um að ríkissjóður fái til sín þær tekjur, fyrir hönd þjóðarinnar vitaskuld, sem ríkinu ber að fá, heldur snýst þetta líka um að tryggja að minni aðilar geti valið sér þennan atvinnuveg, haft þetta að atvinnu og geti gert það á raunhæfan hátt þannig að hið stóra kerfi sem menn upplifa á einhvern hátt sem vont þvælist ekki fyrir þeim. Þetta er ein af þeim atvinnugreinum sem ég held að sé óhætt að segja að einkenni Ísland, einkenni íslenskt atvinnulíf.

Þess vegna er mjög mikilvægt að við berum ekki bara virðingu fyrir þeim peningum sem koma inn í ríkissjóð, hvaða kerfi sem við erum með, þótt það sé mikilvægt líka, heldur þurfum við að leita leiða til þess að gera menn sem frjálsasta, en samt þannig að vel sé farið með auðlindina og hún nýtt með sjálfbærum hætti.

Þegar fram líða stundir býst ég fastlega við því að þetta verði til meiri umræðu og vonandi svo. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að sinni, virðulegi forseti, en fannst rétt að nefna þessi atriði við þetta tækifæri.