145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður hér. Ég verð nú að byrja á því sem hv. þingmaður endaði á. Hann byrjaði nú áðan á að tala um að hann hefði tamið sér að hugsa ekki um málið pólitískt, það stingur svolítið í stúf þegar hann hefur staðið hér sjálfur og sagst vera fulltrúi ákveðinna hagsmunaaðila, það er auðvitað pólitík. Það að vera hér og rifja upp þessa síðustu daga sem við ræddum rammaáætlun og barma sér yfir því hvaða orð voru látin falla, það er kannski í ætt við það hvernig að því máli var staðið. Það að vilja hafa áhrif á tiltekið ferli með einhverjum hætti, þó að það sé faglegt, hefur okkur þingmenn ekki yfir það að hafa ekki á því skoðun eða taka um það ákvarðanir. Það hefur enginn að mínu viti sagt hér inni, en það breytir því ekki, og þingmaðurinn getur ekki neitað því, að það var algjör ruddapólitík í gangi þegar hér var öllu bókstaflega snúið á hvolf. Sem betur fer var það sent til föðurhúsanna aftur og málin geymd. Ég held að það hafi verið það besta fyrir málið.

Hér voru líka ákveðnar mistúlkanir í máli hv. þingmanns gagnvart formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hún þurfti því miður að bregða sér frá og gat ekki farið í andsvar við þingmanninn til að leiðrétta hann, sem hún ætlaði að gera, en hún á örugglega eftir að koma því að þegar þetta mál kemur til umræðu síðar.

Varðandi það sem hér er undir og þær breytingar sem hér eru er það eins og gengur og gerist í svo viðkvæmu máli sem náttúra Íslands er að það verður aldrei svo að við getum öll verið sátt. Ég held að við séum öll svo skynsöm að við áttum okkur á því. Það þýðir heldur ekki að við getum ekki beitt okkur af öllu afli fyrir einhverju sem við trúum ekki á eða fyrir því sem við trúum á. Þegar hér eru tilfinningaþrungin orð látin falla, eins og hv. þm. Róbert Marshall sagði að Urriðafoss yrði ekki virkjaður meðan hann lifði. Þetta er bara tilfinning og hans mál sem maður skilur svo þegar maður er búinn að koma og sjá hann. Það er pólitík að hlusta eftir því sem manni finnst og það sem maður kann að meta og ég tala nú ekki um þetta fólk sem er mjög víða og mikið úti í náttúrunni og umgengst hana af mikilli virðingu.

Hér undir eru breytingar sem fólk er missátt við. Af því að þingmaðurinn nefndi að mikið væri talað um það að það mætti virkja einhvers staðar annars staðar en í eigin ranni, þá væri það í lagi en ekki annars staðar. Ég fagna ákveðnum niðurstöðum sem hér birtast. Það fellur ekkert endilega í kramið hjá mörgum í mínu kjördæmi svo að ég segi það nú bara hér. Miðað við þær umsagnir sem komið hafa fram um málin er það alveg ljóst að að okkur er sótt um Hrafnabjargarhugmyndir og virkjanir þar. Það fellur til dæmis ekki að mínu skapi. Ég styð algerlega við niðurstöðu nefndarinnar hvað það varðar og er í raun með Skjálfandafljótið allt saman og jökulárnar í Skagafirði og hvað það er afskaplega glöð yfir þessari niðurstöðu. Ef við tökum ekki mark á því, þegar jafnvel er talað um þriðja hæsta verðmætamat allra landsvæða sem fjallað er um — svo getum við deilt um hvernig við nálgumst það sem er ekki jafn skýrt rökstutt — en þegar það liggur fyrir og er vel rökstutt hvað þetta hefur í för með sér. Ég fór sjálf að Aldeyjarfossi í sumar og hafði þá ekki komið þangað frá því ég var krakki. Þetta er stórkostlegt umhverfi og yrði stórslys ef virkjað yrði þarna þannig að bæði Ingvararfoss og Aldeyjarfoss mundu breytast svo mikið að þetta yrði ekki sama svæði.

Svo er líka rökstutt hér hvað er í raun undir, ekki bara mundi draga úr ásókn ferðamanna sem sækja þarna mikið, heldur í raun varpstöðvar heiðagæsa og fálka, framburður og varpstaða á landinu, 16 tegundir fugla á válista o.s.frv. og menningarlegt landslag og ýmislegt fleira er hér tiltekið.

Það eru auðvitað margar tillögur til virkjunarkosta hér sem eru settar í vernd sem hafa verið umdeildar og verða áfram. Það er kannski mat manns sjálfs á aðstöðunni, en ég skil ekki hvernig einhverjum dettur í hug að virkja jökulárnar. Mér finnst það svo galið að ég sé ekki skynsemina í því. Þarna hefur orðið til gríðarleg ferðamennska, ekki bara fyrir Skagfirðinga heldur í raun allt landið. Við þekkjum flúðaferðirnar og annað slíkt og fuglaskoðun og ýmislegt fleira sem þarna er.

Ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp af því við Vinstri græn höfum náttúrlega sterkar skoðanir á þessum málum. Það er ekki svo að það sé endilega eitt eða allt hjá okkur, heldur reynum við að horfa á þetta með skynsemi. En Vinstri hreyfingin – grænt framboð í Skagafirði sendi frá sér ályktun sem er frá 2005 og hún hefur ekki breyst. Hún hljómar svo, með leyfi forseta:

„Héraðsvötin og jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að vernda þau og nýta óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing vatnanna fyrir fuglalíf, uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska, er einnig ómetanleg.“

Svo er verið að tala hér um ferðaþjónustuna í Skagafirði sem er í örum vexti og minnst á fljótasiglingarnar sem skapað hafa svæðinu mikla sérstöðu, og ég fór hér inn á áður. Þær eru mikilvægar þessar ár fyrir lífríkið í heild sinni. Þörfin fyrir rafmagnið er ekki svo ýkja mikil að við getum lagt svo mikið undir. Það held ég að sé alveg ljóst. Við þurfum miklu frekar að horfa í það sem við þó þegar höfum framkvæmt og sjá hvort við getum nýtt það sem fyrir er betur og svo er auðvitað alltaf þessi síkvika spurning um að selja rafmagnið til álvera og annarrar stóriðju á allt of lágu verði. Það er kapítuli út af fyrir sig sem hér hefur ítrekað verið ræddur.

Ég ákvað að taka þessi svæði sérstaklega í þessum stutta tíma til þess að ræða það sem kemur inn í norðurkjördæmin, vestur og austur, af því að það er nú kannski það sem snýr beint að mínu kjördæmi og rúmlega það reyndar. En aðrir hafa kannski talað meira um það sem snýr að Þjórsá og Skrokköldu og fleiru, þannig að þetta er málefni sem maður velkist í vafa um hvort eigi yfir höfuð að ná fram að ganga á þessu þingi þegar svo stutt er eftir í ljósi þess hvernig málum hefur verið háttað fram til þessa af núverandi ríkisstjórn og þingmönnum hennar. Það eru góðir hlutir hérna að mínu mati, sem ég var hér meðal annars að fara yfir, en það eru líka aðrir hlutir hérna sem ég á erfitt með að fella mig við. Um leið og ég segi að það verður sjálfsagt sjaldan þannig að hægt sé að koma til móts við alla í þessu þá er það auðvitað réttur okkar þingmanna að berjast fyrir því sem við teljum vera réttast og reyna að rökstyðja mál okkar með sannfærandi hætti.