145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[19:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir þetta mál eins og mörg EES-mál sem ég hef tekið eftir upp á síðkastið afskaplega gott og ég sé ekki neina ástæðu til þess að samþykkja þau ekki. Ég hef samt heyrt reglulega út undan mér og sérstaklega frá hæstv. Framsóknarflokki, já, hæstvirtum, að við höfum ekkert um þessar EES-reglur að segja o.s.frv. En svo sé ég alltaf þessar frekar vel ígrunduðu hugmyndir koma fram. Ég hugsa með mér: Kæmi þetta mál fram ef við værum ekki í EES? Höfum við einhverja ástæðu til þess að hafna því eða er þetta mál sem við mundum að eigin frumkvæði taka upp? Mundum við taka upp þessa rafrænu hluti sem eru nefndir þarna? Mig langar að inna hæstv. utanríkisráðherra eftir þessu vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra er mestmegnis að vinna með þessi EES-mál og leggur þau fram. Þetta eru samt mál sem væru væntanlega á könnu innanríkisráðherra ef þau væru upprunnin hér.

Telur hæstv. ráðherra þessi EES-mál almennt vera til bóta? Það er spurningin sem ég er að koma að hérna. Ég tengi þetta umræðunni um ESB og auðvitað EES sérstaklega og umræðunni um að þarna sé alls konar málum neytt upp á okkur, prangað upp á okkur og við höfum ekkert um þau að segja, en svo sé ég það eiginlega ekki gerast að yfirvöld reyni að streitast á móti nema mjög sjaldan. Yfirleitt virðist þetta bara vera fín löggjöf, fínar hugmyndir eins og þessi. Ég velti fyrir mér hver sýn hæstv. utanríkisráðherra er á það. Telur hæstv. utanríkisráðherra að þetta mál væri lagt fram hér á þingi ef við værum ekki í EES? Ættum við ekki í raun og veru að þakka fyrir það að vera í EES? Ættum við ekki að þakka fyrir að það sé galvaskur hópur bírókrata og stjórnmálamanna annars staðar að búa til jafn fágaða og fína löggjöf fyrir okkur til þess að við getum tekið hana inn?