145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:19]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um það hvort við ætlum setja vernd og orkunýtingu landsvæða í umhverfis- og samgöngunefnd eða atvinnuveganefnd. Þetta mál er bæði mikilvægt umhverfismál og atvinnumál. Ég held að óþarfi sé að gera ágreining um það í hvora nefndina málið fer. Þingsköpin gera ráð fyrir því að þetta geti farið í báðar nefndir. Ég sjálfur hefði gjarnan viljað fá málið til okkar í umhverfis- og samgöngunefnd en geri ekki athugasemd við að það fari til atvinnuveganefndar. Formaður atvinnuveganefndar boðar hér að hann muni fá umsögn umhverfis- og samgöngunefndar um málið. Á sama hátt, ef málið lendir í umhverfis- og samgöngunefnd mun hún leita eftir umsögn atvinnuveganefndar. Ég held að við ættum bara að greiða atkvæði um þetta og svo mun sú fagnefnd sem fær málið til sín fjalla faglega um það.