145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Yfirlýsing hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fullnægir óskum mínum um það hvernig um þetta mál á að búa. Mér fannst vanta í tillöguna sem samþykkt var að undirlagi hans og félaga hans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd betri útfærslu á aðkomu þingsins. Mér fannst í 1. umr. um þetta frumvarp eins og menn gerðu því skóna að fortíðin gæti aldrei endurtekið sig. Vissulega er það svo að á vorum tímum tel ég engar líkur á því að nokkur stjórnmálaflokkur eða nokkur hreyfing hafi áhuga á að beita óeðlilegum ráðum til að fylgjast með og njósna jafnvel um pólitíska andstæðinga sína.

Við sjáum þetta gerast í öðrum löndum þar sem ríkisstjórnir eru að njósna um ríkisstjórnir, þar sem jafnvel ríkisstjórnir okkur vinveittar eru að njósna um aðra vini sína. Hlutir af þessu tagi geta alltaf brotist fram á Íslandi einhvern tímann. Þó að við teljum engar líkur á því núna geta aðstæður breyst tiltölulega hratt. Við verðum núna, á meðan hægt er að ná sammæli um aðgerðir af þessu tagi, að tryggja það og búa svo um hnúta að það geti ekki gerst. Því verð ég að segja að ég er ánægður með þessa yfirlýsingu hjá hv. þingmanni. Hún fellur mjög að þeim málflutningi sem ég hef haft uppi og þess vegna get ég sagt að ég mun styðja þetta frumvarp, eins og ég gerði reyndar á fyrri stigum að fenginni umsögn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en ég tel að þetta sé mál sem við þurfum að láta okkur varða.