145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

vegaframkvæmdir.

[10:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Verkin sýna merkin. Vegaframkvæmdir á þessum þremur árum, bæði viðhald og nýframkvæmdir, eru sáralitlar miðað við það að ríkissjóður stendur miklu betur en á árunum eftir hrunið. Tekjur af ferðamönnum eru engar smáfjárhæðir, 70 milljarðar, og stefnir í að ferðamönnum gæti fjölgað í 2,4 milljónir á næsta ári. Þeir eru eitthvað um 1,7 milljónir í ár. Ætlar ríkið bara að skila áfram auðu? Það þarf um 10 milljarða aukningu á ári ef mæta á hinu mikla álagi á vegakerfið. Þá er ég ekki bara að tala um álag vegna fjölgunar ferðamanna, ég er að tala almennt um íbúa landsins og fyrirtæki. Það er mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórninni að hafa ekki staðið í lappirnar í þessum málaflokki. Ég efast ekki um að hæstv. ráðherra hefði viljað gera betur, en fjárveitingavaldið hefur haldið að sér höndum. Þetta er til háborinnar skammar (Forseti hringir.) og sífellt fleiri úr þessum geira, embættismenn og formenn samtaka, stíga nú fram og gefa ríkisstjórninni falleinkunn í þessum málaflokki.