145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að framselja meira ríkisvald en með nokkurri annarri gerð sem við höfum samþykkt á Alþingi Íslendinga frá því að við gengum í EES. Á sínum tíma fóru fjórir stjórnvitringar yfir það hvort aðild okkar að EES bryti stjórnarskrána. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Á þeim tíma töldu menn að EES væri tiltölulega statísk eining sem mundi ekki breytast mikið. Annað kom á daginn. Þessir fjórir stjórnvitringar sögðu einmitt að menn ættu að fylgjast með þeirri þróun og ef í ljós kæmi að reglur ESB mundu breytast og hugsanlega stangast á við stjórnarskrána hefðum við þjóðréttarlegar skuldbindingar til að breyta henni. Ég held að það sé algjörlega komið á daginn eftir þessa umræðu að það er mjög mikilvægt að breyta stjórnarskránni. Það á að vera sá lærdómur sem við drögum af þessu máli, við verðum að vinda okkur í það sem fyrsta mál bak kosningum að breyta stjórnarskránni, taka upp nýja stjórnarskrá á grundvelli þeirra draga sem stjórnlagaráð sendi frá sér (Forseti hringir.) Það hefði leyst þau vandamál sem hér komu upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)