145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[18:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi fjárauki er minni að sniðum, kannski ekki í upphæðum en mér sýnist vera búið að fara svolítið í gegnum það hvaða liðir rata inn á fjáraukann. Þetta er allt annað en fjáraukinn fyrir árið 2013. Þá lagði hæstv. fjármálaráðherra það þannig fram að það voru fimm, sex liðir undir forsetaembættinu, sem rötuðu einhvern veginn inn á fjáraukann 2013, sem snerust m.a. um tölvuvesen og bílakaup. Það þurfti að fjármagna fálkaorður sem þurfti að smíða og það voru fleiri opinberar heimsóknir en gert hafði verið ráð fyrir. Í rauninni var eins og ekki hefði verið gerð almennileg fjárhagsáætlun fyrir embættið. Þetta rataði inn á fjáraukann og við gagnrýndum það í minni hlutanum. Hér er embætti forseta Íslands enn og aftur komið inn í fjáraukann. Þótt upphæðin sé ekki há, eins og nefnt hefur verið, mundi maður ætla að 5 milljónir í heimasíðu ættu að rúmast innan fjárheimilda embættisins. Mér finnst þetta spurning um jafnræði vegna þess að ég býst við að aðrar stofnanir geti ekki fengið nýjar heimasíður fjármagnaðar á fjáraukanum. Hvað segir hæstv. ráðherra við því? Geta söfn og framhaldsskólar og aðrir sem þurfa nauðsynlega á nýrri heimasíðu að halda fengið það fjármagnað í gegnum fjáraukann?

Annar þáttur sem er hér og snýr líka að forsetanum, ekki það að ég sé með hann á heilanum, er utanríkisráðuneytið. Þar er ekki talað um stórar upphæðir en aðstoðarmann fyrir núverandi forseta Íslands. (Gripið fram í: Fyrrverandi.) — Já, fyrrverandi. Við erum sammála um það að eflaust eru fyrrverandi forsetar mjög góðir sendiherrar fyrir land og þjóð og ekkert óeðlilegt að styrkur sé veittur til þeirra. En ætti það þá ekki að rúmast innan fjárheimilda utanríkisþjónustunnar? Er það ekki ákvörðun utanríkisþjónustunnar að segja að þau ætli að forgangsraða með þessum hætti og þá kannski hækka fjárheimildina í fjárlögum fyrir næsta ár? Ég spyr að þessu af því að öðru leyti sýnast mér (Forseti hringir.) flestir liðir hérna svo sem standast lög um fjárauka.