145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað hárrétt að þegar menn hafa miklar heimildir og geta safnað miklu af gögnum þá kemur upp hætta. Það er hætta. Það er gífurlegt magn af upplýsingum til í stjórnkerfinu en við reyndum þó að draga eins mikið úr þessu og við gátum. (Gripið fram í.) Við skulum fagna því saman. Ég get alveg viðurkennt að persónulega átti ég alltaf mjög erfitt með að samþykkja svona víðtæka upplýsingasöfnun og víðtækar heimildir. En ég met það þannig núna að þetta sé tímabundið við mjög sérstakar aðstæður og ég treysti á það að ekki verði farið í meiri upplýsingaöflun og gagnaöflun en nauðsynlegt er til þess að ná þessum markmiðum. Við erum auðvitað brennd. Við erum stressuð af því að það er svo mikið undir. Þess vegna kann auðvitað að vera hætta á því að við séum að ganga of langt. Ég veit alveg af þessum vanda. En ég ætla að horfa í gegnum þetta vegna þess að þetta er tímabundið og alveg við sérstakar aðstæður.