145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hér birtist okkur enn og aftur það grimma málþóf sem er hafið á lokadögum þessa þings og hvatning til hæstv. forseta um að slíta þingi þrátt fyrir mjög brýn mál sem meiri hlutinn vill að verði lokið áður en gengið er til alþingiskosninga. (Gripið fram í.) Það er alveg eðlilegt í sjálfu sér að minni hlutinn á þingi vilji ekki taka til málefnalegrar umræðu brýn mál eins og lánasjóðsmálið og málin um Bakka. Það er vitað um mikla andstöðu við þau mál. Hv. þingmenn Pírata hótuðu því fyrir einhverjum dögum að ef LÍN-málið yrði sett á dagskrá mundu þau taka þingið í gíslingu. Við erum auðvitað að vera vitni að því að það er verið að (Gripið fram í.) virkja þá hótun. (Gripið fram í: … í gíslingu.) Þetta er ekkert annað en ákveðin gíslataka á þinginu.

Hér liggur fyrir dagskrártillaga. Við skulum taka afstöðu til hennar og sjá hvort það er ekki lýðræðislegur meiri hluti fyrir þeirri dagskrá sem fyrir liggur. Svo hvet ég (Forseti hringir.) virðulegan forseta til að setja á dagskrá sem allra fyrst mál eins og Bakkamálið, þar sem við verðum fyrir tjóni á hverjum degi sem framkvæmdir þar tefjast, og mál eins og Lánasjóð íslenskra námsmanna.