145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Ég þakka kærlega fyrir góð svör. Það varpar enn skýrara ljósi á það hversu mikilvægt er að hæstv. ráðherra málaflokksins sé til staðar þannig að hægt sé að spyrja um afstöðu ráðherrans til þeirra breytingartillagna sem meiri hlutinn og minni hlutinn hafa lagt fram. Því er nú ekki að til að dreifa hér í þingheimi að ráðherrarnir sem fara með málaflokkana láti sig umræðuna á Alþingi varða, sem er miður.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún kannist við að hefð sé fyrir því að samgönguáætlun dragist svona gríðarlega í nefnd. Það er mjög einkennilegt hve lengi þetta hefur verið hér í nefndinni, hvort þingmaðurinn þekki dæmi þess að landið sé nánast samgönguáætlunarlaust í heil tvö ár.