145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þingmaður deilum skoðunum í samgöngumálum eins og í svo mörgu öðru. Ef við hefðum haft tækifæri til að hafa meira um þetta að segja í gegnum tíðina held ég að vegamálum væri betur borgið en þeim er í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég er sammála því að áætlun sem stenst verður að vera í gangi. Núverandi innanríkisráðherra hefur verið að daðra við einkaframkvæmdir. Ég er ekki hrifin af því að þetta eigi að byggjast upp á því að hægt sé að kaupa sig fram fyrir í röðinni eins og í heilbrigðiskerfinu. Íbúar þessara svæða, Vestfjarða og annarra svæða vítt og breitt um landið, hafa í gegnum tíðina, með sinni miklu gjaldeyrissköpun í sjávarútvegi, lagt gífurlega inn í þjóðarbúið og eiga fyrir hverri krónu sem lögð er í vegaframkvæmdir og þurfa ekki að skammast sín fyrir það. Mér finnst oft að þetta sé eins og ölmusa til fámennra og dreifðra byggða sem séu komnar að fótum fram; að það eigi að hinkra við og sjá hvort þær fjari ekki út í rólegheitunum. Þau viðhorf eru kannski ekki allsráðandi en þau eru því miður til.

Við eigum ekki að láta slík viðhorf stuða okkur, heldur eigum við að sækja það sem við eigum rétt á. Þessi svæði, hvort sem það eru Vestfirðir eða önnur svæði á landinu þar sem vegaframkvæmdir hafa dregist langt aftur úr, eiga auðvitað að fá fé svo að byggðir séu upp öruggir vegir sem miðast við nútímaþarfir á 21. öldinni, svo að búsetuskilyrðin séu eins og þau gerast best. Það er eðlileg krafa og sjálfsögð.