145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:38]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir hans ágætu ræðu. Ég tek undir með honum hversu mikið þarfaþing Vestfjarðagöngin voru á sínum tíma bara af því að ég var þá á vettvangi og get vitnað um það hversu stórkostleg áhrif þau hafa haft allar götur síðan.

Við höfum rætt núna samgönguáætlun í tvo daga og okkur í minni hlutanum ber saman um að markaðir tekjustofnar hafi ekki skilað sér sem skyldi í þá áætlun sem nú liggur fyrir til samþykktar í þessari tillögu sem verður vonandi leidd til lykta á morgun eða í næstu viku.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var ekki í salnum í morgun þegar við vorum að ræða um aðra tekjumöguleika til samgöngumannvirkja. Þá ræddum við m.a. gjaldtöku svipaða þeirri sem hefur verið viðhöfð í Hvalfjarðargöngum, enda er þar um að ræða einkaframkvæmd sem hefur heppnast ákaflega vel. Við ræddum um að það væri auðvitað mikilvægt að svona gjaldtaka væri á öllum leiðum út frá borginni þannig að við gættum jafnræðis við gjaldheimtuna.

Mig langar að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon: Sér hann fyrir sér að til viðbótar við það að við höldum áfram að berjast fyrir því að markaðir tekjustofnar skili sér í vegakerfi landsins þá tökum við upp gjaldheimtu í auknum mæli frá því sem við þekkjum núna? Ég spyr ekki síst í ljósi þess að gjaldheimta er í sjálfu sér orðin mjög einfalt fyrirbæri og fer bara fram í gegnum símana sem við erum öll með í dag þannig að það er ekki um flókna uppsetningu á skúrum eða vegaskúrum að ræða. Mig langar til að við skoðum þennan kost alvarlega til þess að flýta ýmsum mikilvægum vegabótum. Mig langar að spyrja hv. (Forseti hringir.) þingmann: Er hann sammála mér að við gætum farið þessa leið?