145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:43]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir svar hans við andsvari mínu. Ég er ánægð að heyra að hann skuli taka undir þessi sjónarmið. Eins og kom fram í ræðu minni fyrr í dag var ég á ferð um Suður-Rúmeníu í sumar og meira að segja í því ríki sem við mundum kannski ætla að væri með mjög vanþróað samgöngukerfi. Það var bara öðru nær, þar er mjög gott samgöngukerfi. Ökumenn tóku gjarnan upp símann og sendu sms til þess að borga vegatolla þannig að það er orðin útbreidd notkun eftir því sem ég kemst næst. Ég held að við eigum í alvörunni að fara að skoða þetta vegna þess að eins og fram hefur komið í ræðum í dag þá er vegakerfið okkar mjög illa sett. Við þyrftum meira að segja að bæta talsvert í bara til þess að halda því við, hvað þá að fara að byggja það upp eða uppfæra það, „uppdeita“ það eins og má að orði komast. Það eru mörg verkefni sem (Forseti hringir.) liggja fyrir að er brýnt að fara í þannig að ég held að við eigum í alvörunni að hugsa um (Forseti hringir.) aðrar leiðir við fjármögnun á vegakerfi landsins.