145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:06]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er oft þannig að í langri umræðu um stór mál eins og samgönguáætlun, sem ekki hefur fengist afgreidd það sem af er þessu kjörtímabili, gerast góðir hlutir á leiðinni. Við í minni hlutanum höfum lagt fram nefndarálit þar sem við lýsum yfir stuðningi við breytingartillögur meiri hlutans, en lögðum til viðbætur í sérstöku þingskjali, þ.e. viðbótarbreytingartillögur sem við lögðum til að yrðu samþykktar. Eftir samtöl við fulltrúa meiri hlutans og fulltrúa framkvæmdarvaldsins höfum við náð saman í nefndinni um að taka inn nokkrar breytingartillögur okkar í minni hlutanum sem við höfum fært mjög góð rök fyrir. Því munum við í atkvæðagreiðslu draga fyrri tillögupakka okkar til baka og vil ég nú þá mæla fyrir nýjum tillögupakka sem kemur frá nefndinni allri.

Sú sem hér stendur, og er framsögumaður á þessum breytingartillögum, og hv. þingmenn Róbert Marshall, Svandís Svavarsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Höskuldur Þórhallsson, Birgir Ármannsson, Vilhjálmur Árnason, Elín Hirst og Haraldur Einarsson, leggja þessa tillögu fram í sameiningu. Hún snýr að því að í stað þeirrar tillögu sem við höfum lagt fram, um að inn komi 1,5 milljarðar í viðhald ofan á þann 1 milljarð sem meiri hlutinn hafði áður lagt til, leggjum við til að sú tala verði 1 milljarður árið 2017 og annar milljarður árið 2018. Það er vel ásættanlegt vegna þess að eins og áður hefur komið fram í máli mínu hefur Vegagerðin haldið því fram að hún þurfi 8–9 milljarða til að geta viðhaldið þeim fjárfestingum með sómasamlegum hætti sem þegar hefur verið ráðist í.

Næsta skref á auðvitað að vera hjá nýju þingi. Það á taka þetta lengra og svara kalli Vegagerðarinnar upp á 11 milljarða árlega til að hún geti farið í að uppfæra vegina og gera þá sterkari fyrir framtíðina, bætt öryggi o.s.frv. Það er fullkomlega ásættanlegt og við erum gríðarlega ánægð með að þessi ákvörðun hafi verið tekin vegna þess að við erum þá í það minnsta að verja vegi sem allt of lengi hafa fengið of lítið fjármagn til viðhalds þannig að þeir hafa verið að grotna niður.

Það gagnast líka landinu öllu, þetta þýðir að hægt verður að ráðast í viðhald um land allt.

Við leggjum í fyrsta lagi til að ráðist verði í rannsóknir og frumhönnun jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta. Það eru 5 millj. kr. árið 2017 og 5 millj. kr. árið 2018. Þar er ekki verið að taka ákvörðun um að fara af stað heldur að fara í undanfararannsóknir.

Þá er í öðru lagi lagt til að ráðist verði í úrbætur á Snæfellsnesvegi um Skógarströnd og ýmsum öðrum stöðum þar í kring fyrir 125 millj. kr. á árinu 2017 og aðrar 125 árið 2018. Hér hefur líka verið mjög mikið verið rætt um veginn að Látrabjargi sem er algjörlega til háborinnar skammar hvernig hefur verið látinn drabbast niður. Því hefur náðst samkomulag um að í hann fari á árinu 2018 120 millj. kr. Menn leggja allt í að koma þeim vegi í sómasamlegt horf enda er á honum mikið álag.

Þá er ein tillaga til viðbótar, þ.e. að á árinu 2018 verði hafinn undirbúningur og útboð vegna Axarvegar fyrir austan.

Þetta eru tillögur nefndarinnar til viðbótar við þær breytingartillögur sem koma frá meiri hluta nefndarinnar og náðst hefur samstaða um að afgreiða á þessu þingi. Fyrir það er ég óskaplega þakklát. Samgöngumálin eru gríðarlega mikilvæg fyrir okkur og hver einasta króna sem kemur núna inn í samgöngumálin skiptir máli vegna þess að það er fjárfesting í framtíðinni, það er fjárfesting í undirstöðuatvinnuvegum eins og ferðaþjónustu. Það er fjárfesting í byggðaþróun sem gerir samfélag okkar sterkara. Því sterkari sem innviðirnir eru, því sterkara er samfélagið. Ég tel að með þessari sátt um afgreiðslu samgönguáætlunar að þessu sinni komi inn veruleg og mikil innspýting sem skipta muni máli.