145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[20:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar aðeins að velta því upp að það er, eins og hv. þingmaður segir, breytinga að vænta. Þess vegna geri ég ráð fyrir að málið fari til fjárlaganefndar á milli umræðna þar sem lífeyrissjóðsmálin voru augljóslega ekki nógu vel unnin, þar var ágalli á þannig að sá liður fer út.

Mig langar til að gera það að umtalsefni sem við höfum stundum rætt hér, hvað er fyrirséð og hvað er ófyrirséð. Lokafjárlög taka á því sem er ófyrirséð, ekki satt? Þau eiga að gera það og við höfum reynt að vanda okkur og gera betur. Mig langar þess vegna að velta því upp með þingmanninum að þriðja tillagan hér er 38 millj. kr. framlag til Stjórnstöðvar ferðamála, sem á að efla menntunarstig starfsfólks í ferðaþjónustu. Það á að setja á laggirnar Þekkingarsetur ferðaþjónustunnar.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann hefur kynnt sér eitthvað hvað er þarna á bak við, hvað er undirliggjandi, hvort aðrir geta séð um þetta eða hvernig þessu er háttað í dag. Hvers vegna er verið að stofna einhverja stofnun eða hvað er þetta? Þessar milljónir eru í fjáraukalögum. Er gert ráð fyrir því að þetta verði árlegt framlag eða er þetta einstakt og sértækt framlag? Nú er kominn október, er þetta á ársgrundvelli? Hvað þýðir þetta? Megum við búast við hærri fjárhæðum á komandi árum í þessa stofnun? Getur þingmaðurinn sagt mér eitthvað um þetta?