145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vistvæn framleiðsla í landbúnaði.

[11:07]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Ég held að þetta snúist í raun um að afnema þessa reglugerð, að það sé það sem þetta snýst um og það sem átti að gera, að leggja þessa vistvænu vottun af í bili, nema ráðuneytið sé að vinna að annarri leið hvað þetta varðar. Staðan er þannig í dag að það er töluvert af vörum á markaði, íslenskum vörum, sem merktar eru sem vistvæn framleiðsla, til dæmis egg. Ég er gagngert farin að sneiða hjá þessum merkingum því að ég veit ekkert hvað er þarna að baki. Það er gríðarlega mikilvægt að merkingar séu skýrar og það sé eitthvað á bak við þær. Þarna komum við líka inn á mikilvægi þess að Neytendastofa, sem er opinber eftirlitsstofnun, hafi bolmagn til þess að rannsaka þessa hluti, rétt eins og við gerum með verðmerkingar og auglýsingar og hvað annað. Það þarf að vera alveg á hreinu, þegar við erum að merkja vörur, að neytendur viti hvað er þar að baki.

Varðandi lífrænu framleiðsluna hefði ég viljað sjá miklu metnaðarfyllri (Forseti hringir.) áform í búvörusamningunum. Ég vona að landbúnaðarráðherra sé sammála mér í því að við þurfum að gera miklu betur þar.