145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði af athygli á hv. þingmann og hef nú yfirleitt verið hrifinn af röksemdafærslu hans að einhverju leyti en skildi hvorki upp né niður í þessari furðulegu ræðu.

Ef markmiðið með þessum breytingum er að stuðla að hraðari eignamyndun, af hverju er þá verið að mismuna fólki á grundvelli lánaforma? Af hverju er ekki stuðningurinn skilyrtur því að niðurgreiðsla á höfuðstól sé með sama hætti í verðtryggðu láni og óverðtryggðu? Það er hægt, eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason benti á hér áðan. Það er hægt að greiða hraðar niður verðtryggt lán. Ef það er markmið ríkisins að lán séu greidd niður hratt, af hverju er þá ekki bara boðið upp á það að hinn opinberi stuðningur sé veittur óháð formi láns, svo fremi sem menn greiði hratt niður?

Yfir í annað. Hver eru efnisrökin fyrir því að binda opinberan stuðning, niðurgreiða eina tegund láns? Hér er sagt að það sé ekki hægt að láta þetta virka um báðar tegundir vegna þess að menn hafi ekki reiknað út áhrifin. Hver halda menn að verði áhrifin á ríkissjóð við að ívilna einu lánaformi? Það fara þá fleiri í það lánaform. Fjármálaráðuneytið veit nákvæmlega ekkert um hver þau áhrif á endanum verða í kostnaðarmati. Ekki frekar en nefndin getur gert það.

Það sem hlýtur að vera hér grundvallaratriði er að nefndin þarf að rökstyðja hvað sé svona stórhættulegt við það lánaform sem yfirgnæfandi meiri hluti fólks velur núna með upplýstum hætti þrátt fyrir að eiga val um annað. Er allt þetta fólk fífl að áliti hv. þingmanns, allir sem eru að kaupa íbúðir núna og taka verðtryggð lán að yfirgnæfandi hluta? Það er líka þannig að ef menn ætla að beita ríkisvaldinu til þess að mismuna gagnvart borgurunum hljóta menn að þurfa að hafa einhver efnisrök í því. Við leggjum hér álögur á áfengi og tóbak vegna þess að það eru hættulegar vörur. Hver eru efnisrökin fyrir því að verðtryggð lán, sem hafa verið ódýrari síðasta árið en óverðtryggð lán, séu svo hættuleg að ástæða sé til þess að skattleggja þau sérstaklega? Hver eru efnisrökin í málinu?