145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[13:01]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér hafa ýmis orð fallið um þingmenn, svo sem að þeir sem hafa efasemdir um og séu jafnvel á móti þessu frumvarpi séu sósíalistar. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór með þau orð að menn væru sósíalistar ef þeir hefðu efasemdir í þessu máli. Ég tek það ekki til mín. Ég vænti þess að … (Gripið fram í.) — Já, ég tek þetta ekki til mín. (Gripið fram í.) Við erum víst í sama flokki (Forseti hringir.) og það er ekki sósíalistaflokkur. En sumt í þessu frumvarpi er þess eðlis að annaðhvort er frumvarpið vanbúið eða þá að það mismunar þegnum með þeim hætti sem sá flokkur sem ég tilheyri getur ekki sætt sig við. Ef þetta mál er vanbúið (Gripið fram í.) er ekkert annað að gera en að hysja upp um sig og girða í brók og laga það sem út af stendur. En markmiðið er alveg skýrt, að styðja fólk til að kaupa fyrstu íbúð. Um það er enginn ágreiningur á milli mín og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. (Forseti hringir.) En að ég sé sósíalisti, ég frábið mér það, virðulegur forseti, ég er ekki sósíalisti. (Gripið fram í: Það er heiðursnafngift.)(Gripið fram í: Þú ert svolítill framsóknarmaður.)