145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær voru felldar hér á Alþingi breytingartillögur frá minni hlutanum, það voru breytingartillögur sem gerðu ráð fyrir því að í tilviki örorkulífeyrisþega mundu allir bótaflokkar verða hækkaðir jafnt. Hér komu hins vegar mjög seint fram tillögur frá meiri hlutanum um útfærslu á hækkunum til örorkulífeyrisþega. Það voru engar sviðsmyndir sem fylgdu þeim tillögum og við vitum öll að kerfið er flókið og minnsta hreyfing á einu tannhjóli innan kerfisins getur haft ófyrirséðar afleiðingar á áhrifin af heildargreiðslum til lífeyrisþega. Við getum ekki áttað okkur á því nákvæmlega hvað gerist hjá hverjum og einum. Þess vegna verður ríkisstjórnin að bera ábyrgð á þeim tillögum sem hún er að leggja fram. Þess vegna ætla ég ekki að greiða þessum tillögum atkvæði mitt.