146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Eðlilega verður mörgum hv. þingmönnum tíðrætt undir þessum lið um stjórnmálaástandið á Íslandi þessa dagana, enda er mikilvægt að við ræðum það. Líkt og margoft hefur verið sagt er staðan flókin. En þrátt fyrir það sem er að gerast hjá okkur innan lands heldur jörðin áfram að snúast og því miður berast okkur hræðilegar fréttir þessa klukkutímana frá Aleppó í Sýrlandi.

Sameinuðu þjóðirnar og Rauði krossinn hafa beðið núna á síðustu klukkustundum um að almennum borgurum sé hlíft í því styrjaldarástandi sem þar ríkir en hið gagnstæða á sér stað. Sprengjum rignir nú af meiri krafti en áður yfir í gríðarlegum loftárásum. Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest að fjöldamorð á óbreyttum borgurum hafi átt sér stað í borginni. Með þessu er hræðilegt að fylgjast.

En það er ýmislegt sem Ísland getur gert. Það er meira að segja ýmislegt sem við á Alþingi gætum gert. Það einfaldasta og táknrænasta væri auðvitað að fordæma þennan viðbjóð. Annað sem við getum gert, og ég tel að við eigum alltaf að gera, er að tala fyrir friðsamlegum lausnum og gegn vígbúnaði, alltaf, alls staðar. Og svo auðvitað það sem við verðum að gera núna (Forseti hringir.) í kjölfarið á þeim hræðilegu hlutum sem eru að gerast, að axla ábyrgð okkar í samfélagi þjóðanna og hjálpa þeim sem um sárt eiga að binda, (Forseti hringir.) hjálpa þeim sem komast lífs af úr þessum hildarleik og veita þeim hæli í okkar friðsama landi.


Efnisorð er vísa í ræðuna