146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[23:00]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir andsvarið og fyrir tækifærið til að árétta þetta. Mér er ekki kunnugt nákvæmlega hvaða úrskurðarnefndir hafa þetta fyrir reglu akkúrat núna. Ég sat hins vegar í framkvæmdaráði Pírata þar sem við birtum allar okkar fundargerðir og það tíðkast víða í stjórnum, ráðum og nefndum fyrirtækja veit ég. Fundargerðir innihalda venjulega hverjir eru mættir á fundina og hvenær, hver dagskrá fundarins er og líka ef einhverjir víkja af fundi, annaðhvort af því þeir þurfa að fara eitthvað annað eða vegna einhvers konar hæfisvesens. Með því að impra á því að stjórnsýslulög gildi um kjararáð gerum við í fyrsta sinn kröfu um það, þótt hún kunni að hafa verið óformlega í gildi samkvæmt starfsreglum kjararáðs, þó að mér skiljist að alla vega stjórnsýslulög hafi hingað til mögulega verið einhvers konar leiðbeiningarreglur en ekki endilega gildandi reglur, að hæfi verði tekið fyrir.

Það sem ég tel að breytist með því að birta fundargerðir kjararáðs opinberlega er einfaldlega að almenningi verður gert auðveldara að glöggva sig á því sem gerist á fundum þess, hverjir sitja þá og af hvaða tilefni fólk víkur af fundi, vegna hæfis eða annars.