146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst bagalegt þegar kemur að gistináttagjaldinu og komuskatti hvernig að því er staðið. Þegar kemur að gistináttagjaldi hefði verið langeðlilegast að við færum að fordæmi annarra þjóða sem við berum okkur oft saman við og hefðum prósentuhlutfallið 5% á alla gistingu. Þá hefðum við fengið rosalega mikið af peningum inn í sveitarfélögin og jafnvel getað dreift í sameiginlega sjóði sem tengjast sveitarfélögunum svo hægt væri að fara í nauðsynlega innviðauppbyggingu. Svo er ekki. Þetta er dæmigert, t.d. þegar kemur að komugjaldinu. Áhöld eru um hvort það standist lög. Ég hefði gjarnan viljað sjá nánari útfærslur á því hvernig við eigum að bregðast við innviðavandamálum er tengjast auknum straumi ferðamanna til landsins. Það er svo sannarlega ekki gert hér, en það hafði náðst mjög gott samkomulag í stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka um hvernig mætti standa að þessu. Þetta er svo fjarri því að ég á mjög erfitt með að styðja það.