146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, kynnti þau áform ríkisstjórnarinnar að opna bókhald ríkisins enn meir en tíðkast hefur hingað til. Ég fagna því, enda er þarna á ferð eitt helsta baráttumál Pírata, þ.e. að veita almenningi skilyrðislausan aðgang að öllum mögulegum upplýsingum.

Þekking er vald. Það vissi kaþólska kirkjan öldum saman þegar hún einokaði þekkinguna og stjórnaði því hverjir fengu að njóta hennar og skilgreindi hvað var rétt og rangt. Þetta var smásögulegur útúrdúr sögukennarans.

Eftir því sem aðgengi almennings eykst að upplýsingum úr stjórnsýslunni eykst vald almennings. Aðhaldið grundvallast á upplýsingum. Það er ástæðan fyrir því að Píratar vilja t.d. hafa nefndafundi að jafnaði opna.

Píratar hafa sýnt að hugur fylgir máli. Bókhald flokksins er aðgengilegt á heimasíðu hans og hefur verið um langa hríð auk þess sem við birtum kosningabókhald okkar nokkrum dögum fyrir síðustu alþingiskosningar. Þar mátti sjá hversu hárri upphæð við höfðum úr að spila og hvernig þeirri upphæð var varið.

Við skoruðum á aðra flokka að gera slíkt hið sama en enginn annar flokkur sá ástæðu til að bregðast við þeirri áskorun okkar. Ég velti fyrir mér hver ástæðan geti verið.

Leyndarhyggjan hlýtur að ala á grunsemdum um spillingu. Spilling getur ekki þrifist fyrir opnum tjöldum. Að halda upplýsingum leyndum (Forseti hringir.) er að mínu mati spilling.


Efnisorð er vísa í ræðuna