146. löggjafarþing — 19. fundur,  26. jan. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar að spyrja sérstaklega út í lið III í fjármálastefnunni sem hann hefur mælt fyrir þar sem segir:

„Öllu óreglulegu og einskiptisfjárstreymi í ríkissjóð verði varið til að hraða enn frekar niðurgreiðslu skulda eða til lækkunar á ófjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum í því skyni að treysta fjárhagsstöðu ríkissjóðs og draga úr vaxtakostnaði.“

Einskiptisfjárframlög er ekki hægt að nýta til rekstrar ríkissjóðs, almenn sátt hefur verið um það í þinginu, en hins vegar hefur verið talið fullkomlega eðlilegt að verja slíkum fjármunum í það sem við getum kallað stofnframkvæmdir. Við erum að horfa hér á ófjármagnaða samgönguáætlun svo dæmi sé tekið, við erum að horfa á talsverða stofnkostnaðarþörf í kerfinu og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað ráði því að ekki er hluta af þessum fjármunum samkvæmt stefnunni varið til þess að leggja í slíkar innviðafjárfestingar í ljósi alls þess sem ný ríkisstjórn hefur sagt um mikilvægi innviðafjárfestinga. Hvernig stendur á því að ekki er gert ráð fyrir að svigrúm sé til að nýta þessa fjármuni einnig í slíkar framkvæmdir?