146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

þingnefnd um alþjóðlega fríverslunarsamninga.

79. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Á undanförnum árum hafa nokkrum sinnum verið til umræðu hér á vettvangi Alþingis þeir alþjóðlegu fríverslunarsamningar sem gætu haft áhrif á Ísland og Íslendinga á næstu árum, TiSA- og TTIP-samningarnir. Nú kann vel að vera að þróun heimsmála, og þá vitna ég sérstaklega til stöðunnar vestan hafs, verði til þess að hafa áhrif á þessa samninga, sérstaklega þann síðarnefnda, TTIP-samninginn, en eigi að síður er það svo að á meðan Ísland á í viðræðum um samningana er mjög mikilvægt að þingmenn séu upplýstir um inntak þeirra. Því er lögð fram tillaga sem við stöndum öll að, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þar sem við leggjum til að Alþingi kjósi nefnd, sérnefnd, samkvæmt 32. gr. þingskapa, til að fjalla um þá alþjóðlegu fríverslunarsamninga sem við gætum ýmist orðið aðili að eða orðið fyrir áhrifum af og að þar verði fulltrúar allra flokka sem sæti eiga á Alþingi. Þar verði farið sérstaklega yfir svokallaða TiSA-samninga sem snúast um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum og TTIP-viðræðurnar um fríverslun á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem eins og ég áður sagði kann að verða óvíst um framhaldið á í ljósi stöðunnar vestan hafs.

Komi til þess að íslensk stjórnvöld samþykki annan hvorn þeirra samninga sem hér hafa verið til umræðu mun koma til kasta Alþingis að staðfesta þá. Við erum beinir aðilar að TiSA-viðræðunum en höfum við fengið að fylgjast með framgangi mála í TTIP-viðræðunum fyrst og fremst í gegnum þátttöku okkar í sameiginlegu EES/EFTA-nefndinni, því við erum ekki beinir aðilar að þeim viðræðum. Hins vegar vitum við að ef sá samningur næst mun það væntanlega hafa mikil áhrif á Evrópska efnahagssvæðið sem við erum beinir aðilar að.

Það er mikilvægt að fram hafi farið upplýst umræða um kosti og galla þessara samninga í stað þess að Alþingi fái slíka samninga beint í hendur, jafnvel undir tímapressu. Enn fremur þyrfti að taka til málefnalegrar umfjöllunar hvort réttast væri að Ísland tæki einhverja tiltekna afstöðu, drægi sig jafnvel út úr TiSA-viðræðunum eða beitti sér gegn TTIP-samningnum á vettvangi EFTA. Það kunna að vera að skapast nýjar aðstæður eins og ég sagði hér áðan við þessi samningaborð í ljósi þróunar vestan hafs og austan og það er mikilvægt að Alþingi sé líka upplýst um það því að eins og um flest þau mál sem við fjöllum um á þessum vettvangi fylgja samningum sem þessum bæði kostir og gallar.

Samkvæmt heimasíðu utanríkisráðuneytisins á að upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um framgang mála í TiSA-viðræðunum. Þar er ágætis „spurt og svarað“-listi um þessar viðræður. Samkvæmt upplýsingum Alþingis hefur þetta verið gert alls tvisvar sinnum frá árinu 2013, a.m.k. í annað af þeim skiptum að beiðni fulltrúa Vinstri grænna. TTIP hefur aldrei verið til umræðu í utanríkismálanefnd á þessu tímabili en eins og fram kom í máli mínu áðan hafa þingmenn í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES, og þar sitja nota bene ekki fulltrúar allra flokka, fjallað um framgang TTIP-viðræðnanna fjórtán sinnum og um TiSA-viðræðurnar tvisvar á reglulegum fundum sínum frá árinu 2013.

Ég tel fulla þörf á því, og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að Alþingi sem slíkt setji sig betur inn í þessi mál, gefi þeim meiri gaum og fulltrúar allra flokka sem sæti eiga á Alþingi fái tækifæri til að setja sig í smáatriðum inn í báða þessa samninga. Um er að ræða ríka almannahagsmuni og því nauðsynlegt að fulltrúar almennings taki slíkar ákvarðanir með bestu fáanlegar upplýsingar fyrir hendi.

Eins og kunnugt er hafa þessir samningar kannski ekki fengið þá umræðu hér á landi sem fram hefur farið víðast hvar annars staðar. Þá vitna ég ekki aðallega til Alþingis heldur í hina opinberu umræðu, hina almennu opinberu umræðu, til að mynda í fjölmiðlum, en annars vegar snúast þessir samningar um samningaviðræður 50 ríkja Alþjóðaviðskiptastofnunar um aukið frelsi í viðskiptum með þjónustu milli ríkja samningsaðila en hins vegar snúast þeir um fríverslun milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sem eins og ég nefndi áðan kynni að hafa veruleg áhrif á Ísland í gegnum aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

TiSA-samningnum er ætlað að greiða fyrir viðskiptum með tiltekna þjónustu. Áður höfðu slíkar viðræður farið fram innan WTO, þ.e. Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, en steyttu þá á skeri sem leiddi til þess að þessi 50 ríki tóku sig saman um slíkar viðræður. Í stuttu máli sagt munu þau ríki sem staðfesta samninginn, verði af honum, skuldbinda sig til að veita þjónustuveitendum aðgang að mörkuðum sínum þvert á landamæri.

TTIP-samningunum er hins vegar ætlað að ná til bæði fríverslunar og fjárfestinga milli ESB og Bandaríkjanna en töluvert hefur borið á milli samningsaðila. Meðal þess sem hefur verið umdeilt eru kröfur um umhverfisvernd og loftslagsmarkmið, lýðheilsusjónarmið og matvælaöryggi, sem og almenna neytendavernd. Mismunandi sjónarmið um réttindi verkafólks og vinnumarkaðslöggjöf hafa verið umdeild, sem og áhrif á ýmsa innviði á borð við heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Þá eru mjög ólík sjónarmið uppi um skipulag fjármálakerfisins.

Í stuttu máli koma hin ólíkustu svið mannlegrar tilveru við sögu í þessum samningum sem eru samt svo lítið til umræðu á vettvangi Alþingis.

Eins og ég sagði áður má finna töluverða umfjöllun um TiSA-samningana á heimasíðu utanríkisráðuneytisins en þar kemur fram að Ísland muni ekki takast á hendur skuldbindingar á sviðum heilbrigðistengdrar þjónustu, félagslegrar þjónustu eða menntamála. Hins vegar er vel þekkt úr slíkum samningum að skilgreiningar á þjónustu eru iðulega þröngar og alþjóðleg stórfyrirtæki geta því komið að ýmislegri stoðþjónustu í kringum þessar grunnstofnanir samfélagsins. Þá má ætla að tekist verði á um inntak skilgreininga á almannaþjónustu.

Ein af ástæðum þess að þessi tillaga kemur hér fram er að frá upphafi hefur verið gagnrýnd sú leynd sem hefur hvílt yfir báðum þessum samningum. Wikileaks hafa birt fjölda skjala, bæði frá TiSA- og TTIP-viðræðunum, sem hafa valdið usla í opinberri umræðu og valdið því að stjórnvöld hafa nánast verið hrakin til að birta sín gögn. Þar má nefna að Evrópusambandið birti ekki tilboð sitt í TiSA-viðræðunum fyrr en eftir birtingar Wikileaks á skjölunum sem undir lágu árið 2014.

Leyndin hefur þjónað engu markmiði öðru en því að vekja upp tortryggni almennings í garð þessara samninga. Uppi hafa verið veruleg mótmæli gegn þátttöku ýmissa ríkja í þessum samningum sem hafa orðið til þess að meiri upplýsingar hafa komið fram, sem betur fer, í þágu almennings, en líka að stjórnmálamenn hafa orðið gagnrýnni á það hvað í raun heyrir undir samningana og hvernig fyrirkomulag þeirra er ætlað.

Í stuttri greinargerð með tillögunni er farið yfir þessi helstu gagnrýnisatriði, þ.e. leyndina, síðan þau áhrif sem samningarnir kunna að hafa á almannahagsmuni. Það má segja að þar takist á þau sjónarmið að annars vegar sé það hagur almennings að efla frjáls viðskipti sem verði til þess að þjónustan sé veitt með hagkvæmari hætti, fríverslun með hvers kyns vörur og fjárfestingar sé hagur almennings sem skili sér í auknum hagvexti. Hins vegar eru þeir sem gagnrýna og segja að ætlunin sé að draga úr regluverki í kringum hvers kyns þjónustu til að greiða fyrir viðskiptum, þannig að samningarnir lúti fyrst og fremst að hagsmunum stórfyrirtækja.

Þetta er umhugsunarefni. Töluvert hefur verið rætt um t.d. hvaða áhrif slíkur samningur, þ.e. TiSA-samningurinn sem snýst um þjónustuviðskipti, muni hafa á þjónustu banka og annarra fjármálafyrirtækja, svo sem tryggingafélaga, fyrir hefðbundið atvinnulíf, ef við getum kallað það svo, þ.e. ekki fjármálageirann sjálfan heldur annað atvinnulíf, og almenning og eru áhyggjur uppi um að TiSA snúist fyrst og fremst um hagsmuni stórfyrirtækja en ekki hagsmuni smærri fyrirtækja og einstaklinga.

Ekki ósvipuð gagnrýni hefur verið höfð uppi gagnvart TTIP en þar óttast margir að réttindi vinnandi fólks verði skert og slakað verði á hvers kyns kröfum á sviði umhverfismála og matvælaöryggis. Þar hafa verið nefnd erfðabreytt matvæli, notkun skordýraeiturs og hvers kyns hormóna. Orkumál eru annar stór þáttur en talið er að þær hugmyndir sem hafa verið uppi á borðum í TTIP-viðræðum geti beinlínis unnið gegn þeim markmiðum sem sett eru í Parísarsáttmálanum og öðrum alþjóðlegum samningum sem ætlað er að sporna gegn loftslagsbreytingum. Þá hafa verið uppi áhyggjur af áhrifum á fjármálageirann og afregluvæðingu hans. Þar er kunnugt að þar hafa auðvitað Bandaríkin og Evrópusambandið verið á mjög ólíkri vegferð, ef svo má segja. Ég ætla ekki að leggja mat á það hvert nákvæmlega þær vegferðir leiða í hvoru tilviki fyrir sig en ljóst er að mikið ber á milli.

Það sem hvað harðast hefur hins vegar verið gagnrýnt eru hinir yfirþjóðlegir gerðardómar sem ætlað er að úrskurða í deilum stórfyrirtækja við þjóðríki. Fram kemur á heimasíðu utanríkisráðuneytisins að slíkur dómstóll sé ekki hluti af TiSA enda snúist samningurinn ekki um fjárfestingar. Samkvæmt gögnum sem birt hafa verið frá Wikileaks eru uppi annars konar hugmyndir um gerðardóma til að úrskurða í ágreiningsefnum. Hefðbundinn gerðardómur til að úrskurða um deilumál ríkja og fjárfesta, svokallaður ISDS, þ.e. Investment State Dispute Settlement, var lengst af hluti af TTIP-viðræðunum en árið 2015 stakk Evrópusambandið upp á annarri leið sem kallast upp á ensku, með leyfi forseta, Investment Court System. Hins vegar hefur verið efast um lögmæti slíkrar leiðar og hafa bandarísk stjórnvöld talað fyrir því að hefðbundinn gerðardómur til að úrskurða um deilumál þjóðríkja og fjárfesta verði aftur settur á dagskrá.

Þessi mál eru enn óútkljáð í samningaviðræðunum en ljóst er að sú mikla gagnrýni sem hefur verið höfð uppi á gerðardómsleiðina er farin að hafa veruleg áhrif inn í þær. Fordæmi eru nefnilega fyrir slíkum gerðardómum í fríverslunarsamningum milli einstakra ríkja og fjölmörg dæmi eru um mál sem hafa gengið til slíkra dómstóla. Samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna eru dæmin orðin um á sjöunda hundrað í heiminum frá árinu 1987. Fæst slík mál ná eyrum fjölmiðla en nokkur hafa vakið talsverða athygli. Fræg er málsókn tóbaksfyrirtækisins Philip Morris sem fór í mál við Ástralíu og Úrúgvæ fyrir að breyta umbúðum á sígarettum og birta þar viðvaranir um skaðsemi tóbaks. Annað þekkt dæmi er málsókn bandaríska olíufyrirtækisins Occidental Petroleum gegn Ekvador sem vildi stöðva olíuleit fyrirtækisins af náttúruverndarsjónarmiðum en þar var Ekvador dæmt til að greiða olíufyrirtækinu háar skaðabætur, en tóbaksrisinn tapaði sínu máli á sínum tíma.

Við erum með ýmis dæmi um málsóknir stórfyrirtækja á hendur þjóðríkjum í Evrópu. Sænska fyrirtækið Vattenfall fékk umtalsverðar skaðabætur eftir málsókn gegn þýska ríkinu sem herti umhverfisregluverk vegna kolavers í Hamborg. Vattenfall hefur verið gagnrýnt fyrir að reyna að hafa áhrif á niðurstöður íbúakosningar sem haldin var 2013 í Berlín um hvort koma ætti veitukerfum borgarinnar aftur í eigu almennings en þau voru einkavædd 1997 og stendur nú í annarri málsókn við þýska ríkið eftir að þýsk stjórnvöld ákváðu að flýta lokun kjarnorkuvera eftir Fukushima-kjarnorkuslysið árið 2011. Það mál stendur þannig nú að menn reikna með því að sænska fyrirtækið muni hafa betur gegn þýska ríkinu og hljóta milljarða evra í skaðabætur samkvæmt nýjustu upplýsingum.

Hollenskt heilbrigðistryggingafélag hefur tvisvar sinnum farið í mál við slóvakísk stjórnvöld eftir að þau ákváðu að snúa við umfangsmikilli einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Félagið vann fyrra málið 2006 en tapaði því síðara 2012. Óvíst er hver úrslitin hefðu orðið ef þeir umfangsmiklu samningar um alþjóðleg þjónustuviðskipti sem nú eru í undirbúningi hefðu orðið að veruleika.

Óháður sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að yfirþjóðlegir gerðardómar grafi beinlínis undan fullveldi ríkja, lýðræðislegum réttindum borgaranna og réttarríkinu. Stjórnvöldum sé gert ókleift að taka sjálfstæðar ákvarðanir í þágu almannahagsmuna sem njóta lýðræðislegs stuðnings ef þær stangast á við hagsmuni stórfyrirtækja. Það stangist á við mannréttindasáttmálann sem forgangsraði mannréttindum umfram sérhagsmuni.

Nú er það svo eins og ég sagði í upphafi að Ísland er annars vegar beinn aðili að þessum samningaviðræðum og hins vegar aðili sem getur orðið fyrir áhrifum af slíkum samningi. Auðvitað liggur fyrir, þótt ég hafi fyrst og fremst farið yfir dekkri hliðar þessara samninga, að hér eru ekki allir sammála um að það sé endilega aðalmálið heldur fylgi slíkum samningum ýmsir kostir eins og ég kom að í máli mínu áðan. Einmitt þess vegna, af því að við erum ekki öll sammála og af því að það eru kostir og gallar á þessum samningum, tel ég mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga taki þessi mál til miklu virkari umræðu. Ég leyfi mér að segja það að þegar þessi mál hafa komið fyrir í þingsal á undanförnum árum, a.m.k. þegar ég tók þau upp við hæstv. heilbrigðisráðherra á sínum tíma vegna frétta sem komu fram um að málefni tengd heilbrigðisþjónustu hefðu verið sett á borðið í TiSA-samningum — hæstv. ráðherra gat þá raunar ekki svarað þeirri fyrirspurn en seinna meir var upplýst að íslensk stjórnvöld hefðu viljað undanskilja heilbrigðisþjónustuna frá samningunum — voru margir þingmenn sem sátu hér á þingi sem vissu raunar ekkert um hvað þessir samningar snerust sem geta samt haft svo mikil áhrif á okkar daglega líf sem borgara í þessu landi og líka gríðarleg áhrif á stjórnkerfið og hvernig ákvarðanir við tökum. Í ljósi þess að utanríkismálanefnd hefur tekið þessi mál tvisvar sinnum til umfjöllunar frá 2013, í annað skiptið að beiðni minni meðan ég var þar nefndarmaður, ég þekki ekki ástæðu hins skiptisins, og að utanríkismálanefnd hefur ekki fjallað sérstaklega um TTIP, það hefur verið gert á öðrum vettvangi þar sem ekki sitja fulltrúar allra flokka, þ.e. sameiginlegu EES og EFTA-nefndinni, tel ég mikilvægt að 32. gr. þingskapa sé nýtt og við skipum sérstaka nefnd þar sem þingmenn, fulltrúar allra flokka, hafa tækifæri til að kafa ofan í þessi mál og skoða þau út í hörgul. Ef til þess kemur að Ísland verði aðili að þessum samningum eða þeir hafi veruleg áhrif á okkur í gegnum EES-samninginn þá verði allir þingflokkar upplýstir og geti tekið afstöðu til samninganna þannig að okkur muni ekki verða stillt upp við vegg í tímapressu eins og stundum hefur gerst. Ég lít svo á að þetta mál, algerlega óháð því hvað okkur svo finnst á endanum um samningana, sé mikilvægt til þess að greiða fyrir auknum áhrifum þingsins, aukinni upplýsingu til þingsins, í málum sem hafa gríðarmikil áhrif langt út fyrir það sem við áttum okkur á í almennu tali.

Frú forseti. Nú hefur athygli mín verið vakin á því að málið kunni að heyra undir þrjár þingnefndir, þ.e. hv. utanríkismálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég hef leitað mér ráða um þessi mál og tel líklega best að leggja til að málið fari til hv. utanríkismálanefndar þar sem utanríkisviðskipti heyra undir en nefndin getur þó óskað umsagnar efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur fengið að fylgjast með þessum málum að einhverju leyti. Ég legg því til að málið fari til utanríkismálanefndar.