146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög góður punktur. Við erum einmitt að reyna að komast að því nákvæmlega hvað þetta þýði. Aftur á móti komst ég að einu talandi um lögfræðiskrifstofu þingsins. Við getum kallað eftir því að fá skýrslur sem liggja fyrir, nýir þingmenn geta kallað eftir því að þær fari í umræðu, en það er náttúrlega eftir að ráðherra hefur lagt þær fram. Það virðist því vera þetta gat þarna til staðar, að frá því að ráðherra fær kláraða skýrslu og þar til hann birtir þinginu skýrsluna þá virðist vera gat í lögunum. Slík göt eru á fleiri stöðum. Það eru nákvæmlega svona hlutir sem þarf að laga. Ég trúi því að hv. þingmaður vilji góða stjórnarhætti. Við getum bara lagað þetta. Við erum saman í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ef nefndin hefði áhuga á því væri hægt að fara yfir þessi mál og laga upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra gagnvart þinginu þannig að við stunduðum hér góða, lýðræðislega og gegnsæja stjórnarhætti þegar kemur að þessum málum.