146. löggjafarþing — 25. fundur,  6. feb. 2017.

sjómannadeilan.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er rétt að taka það fram að ég hef aðspurður sagt að ríkisstjórnin væri ekki með það á prjónunum að taka aftur upp sjómannaafsláttinn, það skattafyrirkomulag sem honum fylgdi. En við höfum að sjálfsögðu verið í sambandi við ríkissáttasemjara, eftir atvikum átt samtöl við einstaka deilandi aðila og fylgst náið með framgangi þessa langa verkfalls sem, eins og hv. þingmaður rekur hér, hefur mjög alvarleg áhrif víða um samfélagið, ekki bara á þá sem eru beinir aðilar að verkfallinu, hvorum megin borðsins sem er, heldur ekki síður á þriðju aðila. Þau áhrif fara jafnvel vaxandi eftir því sem tíminn líður. Þess vegna hef ég viljað ítreka það hversu mikil ábyrgð hvílir á herðum þeirra sem hér eiga hlut að máli. Það er með engum hætti hægt að gera lítið úr áhrifum verkfallsins.

Þegar þessir deilandi aðilar komu að máli við ríkisstjórnina á síðasta hausti lá það fyrir að einhvers konar ívilnun vegna fæðispeninga gæti riðið baggamuninn um það hvort samningar tækjust og hvort sjómannaforustan myndi mæla með þeim samningum í baklandi sínu. Við þær aðstæður vorum við hv. þingmaður sammála um að það væri rétt af okkar hálfu að reyna að greiða fyrir farsælli lausn deilunnar, og fyrir því voru líka mörg önnur rök. Hins vegar er málið í dag á allt öðrum stað og þau atriði sem aðilarnir deila um þess eðlis að það er mjög flókið, erfitt og langsótt fyrir stjórnvöld að reyna að stíga inn í þann þátt deilunnar. Það er ekki uppi sama staða og þá var, sem sagt að deilandi aðilar væru búnir að ná utan um ágreiningsefni en kæmu eingöngu með (Forseti hringir.) einn afmarkaðan hluta málsins til stjórnvalda til að biðja um að létt væri undir. Þess vegna er staðan að þessu leyti ekki sambærileg við það sem áður var. Við munum áfram fylgjast vel með og (Forseti hringir.) viljum greiða fyrir lausn málsins.