146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Maður verður kannski að biðja þjóðina afsökunar á þeim umræðum sem farið hafa fram hér í tæpar fjörutíu mínútur. Ég ætlaði reyndar að ræða um kjördæmavikuna sem er nýliðin og var afskaplega ánægjuleg eins og áður. Það er sérstaklega gaman að fara um Suðurkjördæmi og heyra þann góða anda sem ríkir í samfélaginu og sjá almenna velmegun. Það er mikil breyting frá því að ég fór fyrst 2013, þegar húsnæðismálin voru erfiðasta málið sem þjóðin átti við.

Það eru líka mjög mikil gleðitíðindi sem urðu í lok kjördæmavikunnar þegar sjómannaverkfallinu var aflýst. Það voru gríðarlega mikil og góð tíðindi eftir langt og erfitt úthald í verkfalli. En þrátt fyrir að sjómenn hafi unnið áfangasigra í þessari löngu kjaradeilu er staðan sú að laun þeirra eru stöðugt að lækka. Ástæðan er auðvitað að mörgu leyti sú að gengi breska pundsins og krónunnar er að breytast og verð á mörkuðum erlendis hefur lækkað mjög mikið. Ég hef sláandi tölur yfir það hvernig afkoma sjómanna og útgerðar er að breytast á þessum tíma, frá t.d. árunum 2013–2015. Ég ætla reyndar að miða við síðasta ár en í febrúar á síðasta ári var þorski landað á Hornafirði, óslægðum þorski, sem 300 kr. fengust fyrir kílóið. Í dag er sama vara seld á 160 kr. Það er næstum því helmingslækkun í þessum tilfellum.

Það má líka benda á að eftir að Rússlandsmarkaður lokaði fyrir kaup á hrognum eða gotu hefur verðið lækkað um 90%. Það þýðir beina tekjuskerðingu fyrir sjómenn. Þetta er bein tekjuskerðing fyrir sveitarfélögin. Þetta er bein tekjuskerðing fyrir ríkið. Í skjóli þess verkfalls sem lokið er standa sjómenn uppi með lægri laun en áður þrátt fyrir góða samninga.


Efnisorð er vísa í ræðuna