146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

matvælaframleiðsla og matvælaöryggi.

[16:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hverri þjóð er dýrmætt að geta framleitt sem mest af matvælum í eigin landi. Á það sérstaklega við eyland eins og Ísland. Þróun matvælaframleiðslu í íslenskum landbúnaði hefur tekið miklum framförum á undanförnum árum og erum við þar í fremstu röð hvað varðar gæði, hreinleika og litla sýklalyfjanotkun, því minnsta sem þekkist í heiminum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag. Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir neytendur helst í hendur við mikla atvinnusköpun í landinu, fjölda afleiddra starfa, eflingu landsbyggðar og dregur úr innflutningi á matvöru um langan veg með tilheyrandi mengun. Framtíðarsýn í matvælaöryggi og matvælaframleiðslu er því nauðsynleg og var sá búvörusamningur sem afgreiddur var á síðastliðnu þingi liður í þeirri stefnumótun. Mikilvægt er að ná sem mestri samstöðu með aðkomu ríkisins að samningum við hinar ýmsu greinar innan íslensks landbúnaðar, einnig við neytendur.

Skipan starfshóps um endurskoðun búvörusamningsins á næstu þremur árum var liður í þá átt að mæta bæði gagnrýni bænda og annarra hagsmunaaðila á samninginn. Allar hugmyndir um stóraukinn innflutning á tollkvótum af kjöti og ostum eru því ekki til þess fallnar að stuðla að meiri sátt. Nauðsynlegt er að viðhalda innflutningsbanni á hráu kjöti, því bannið er nauðsynlegt til að verja íslenskan landbúnað; slíkur innflutningur eykur einnig áhættu á að smitefni geti borist til landsins með meiri ógn við heilsu manna og dýra.

Matvælastofnun upplýsti að fullyrt væri að innfluttur kjúklingur væri seldur sem ferskur í íslenskum umbúðum. Það er auðvitað óásættanlegt að vita ekki um upprunalandið og hvernig dýravelferð og aðbúnaður allur er. Það gera auðvitað íslenskir neytendur kröfu um að vita. Það er því löngu orðið tímabært hjá ráðherra að setja reglugerð um merkingu upprunalands á allar kjötafurðir og einnig lífræna vottun. Miðað við gífurlegan fjölda ferðamanna sem sækir Ísland heim þá er aldrei brýnna en (Forseti hringir.) nú að auka matvælaframleiðslu í landinu og hagsmunir verslunar og þjónustu mega ekki ráða för.