146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[17:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði fyrst til að leiðrétta það sem ég sagði áður varðandi að þetta hefði verið samþykkt í asanum í desember; þetta var samþykkt í asanum í október fyrir kosningar. Best að hafa það á hreinu. Sök Alþingis er að leyfa þann málshraða í staðinn fyrir það sem var í desember þar sem voru einfaldlega fáir dagar undir. Þó hefði verið hægt að hafa fleiri daga undir þar.

Annað sem ég hegg eftir í ræðu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar varðar framsetningu á lagabreytingum. Þetta er eitthvað sem mér hefur fundist virkilega óþægilegt, að lesa sig í gegnum lagabreytingar. Maður nær engu samhengi með tilliti til heildarlaganna. Þá getur oft verið mjög erfitt að handuppfæra lögin sjálfur til þess að sjá í rauninni hvaða breytingar hafa orðið á lögunum. Maður þarf oft að biðja nefndarritara eða aðra um að fá lögin í heild sinni fyrir og eftir breytingar til þess að maður geti borið þau saman. Ég myndi eiginlega vilja nota þetta tækifæri til þess að fá þingið í lið með mér í því að betrumbæta framsetningu á breytingartillögum við lög þannig að maður sjái alltaf heildarmyndina, sjái alltaf hvernig lögin eru fyrir breytingar og eftir þær svo að maður geti tekið tillit til laganna og breytinganna í heild sinni. Það er í rauninni það sem ég vildi koma á framfæri í þessari ræðu. Miðað við þessi mistök geta svoleiðis einfaldar breytingar á framsetningu komið í veg fyrir milljarða króna skaða.