146. löggjafarþing — 30. fundur,  22. feb. 2017.

úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra.

77. mál
[18:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að halda áfram. Ég ætla nú bara að benda á: Er ekki eitthvað pínulítið öfugsnúið hjá okkur hér í þessum þingsal að leggja áherslu á það að tryggja frjálsa og óháða fjölmiðlun annars vegar, og þar erum við sammála, en hins vegar síðan ætlast til þess að þessir sömu fjölmiðlar séu fjárhagslega háðir einhverjum opinberum aðilum um afkomu og rekstur? Er ekki spurningin miklu fremur: Hvernig getum við tryggt að fjölmiðlar séu frjálsir og óháðir og rekstrargrunnur þeirra þannig að hann sé heilbrigður og hægt að reka þá án þess að ríkisvaldið komi þar að? Þar er ein hugmynd sem við gætum kannski velt fyrir okkur. Hún er sú: Er ekki rétt að veita borgurum, skattgreiðendum, raunverulegt frelsi í því að velja sér fjölmiðil? Er ekki rétt að við breytum aðeins þeirri nálgun sem er við fjármögnun Ríkisútvarpsins þannig að á hverju ári þegar við skilum okkar skattframtali veljum við hvert útvarpsgjaldið sem lagt er á og fjárveitingarvaldið, Alþingi, tekur ákvörðun um á hverju ári hversu hátt skuli vera, hvert það skuli renna? Þannig að íbúar í Ólafsfirði taki þá ákvörðun um það hvort þeir ætli að verja sínu útvarpsgjaldi til ríkisútvarpsins eða til staðbundins fjölmiðils? Eða Dalvíkingar, hvort þeir vilji fremur tryggja það að Norðurslóð komi út að hluta, að hluti af útvarpsgjaldinu eða allt útvarpsgjaldið renni þá til útgáfu þessa ágæta blaðs? (Forseti hringir.) Og annarra staðbundinna fjölmiðla? Mér finnst þetta vera eitthvað sem við ættum þá að ræða um og getum þá rætt um það hversu heilbrigt umhverfi almennt er búið að búa til hér fyrir fjölmiðla og hversu óheilbrigt það er, þ.e. óheilbrigt en ekki heilbrigt.