146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[11:36]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka frummælanda kærlega fyrir að hefja þessa sérstöku umræðu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, svo sannarlega er tilefni til að ræða núverandi ástand samgöngumála á því svæði, einmitt út frá fjölgun íbúa og fjölgun ferðamanna sem koma á höfuðborgarsvæðið. Það er líka gott að fá tækifæri til að heyra ögn um áherslur og framtíðarsýn nýs ráðherra samgöngumála. Í þessum stutta ræðutíma ætla ég að leggja áherslu á þá von mína, þegar kemur að uppbyggingu, lausnum og framtíðarsýn á samgöngur á fjölmennasta svæði landsins, þar sem íbúum fjölgar stöðugt og umferðarálag sem fylgir fjölgun ferðamanna eykst, að áherslur nýs ráðherra verði á umhverfisvænan valkost í samgöngulausnum en ekki eingöngu á breikkun vega og mislæg gatnamót eins og fram kom áðan í máli ráðherra.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er ýmislegt sem ég sakna. Ég sakna þess þegar skrifað er um samgöngumál í sáttmálanum að hvergi sé ritað neitt um almenningssamgöngur, eflingu þeirra, og umhverfisvænar lausnir þegar kemur að samgöngumálum. Ég er sammála því sem þar kemur fram, og vona að því verði fylgt eftir, að skoðaður verði möguleiki á samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu og að jafnvel verði enn skýrari lausn í þeim málum. Ég vona svo sannarlega að nýr samgönguráðherra verði líka meira samferða okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði á þeirri vegferð að efla almenningssamgöngur og tryggja áframhaldandi framgöngu borgarlínu og fjármögnum hennar og að hann beiti sér fyrir því að tryggja alvöruframtíðaruppbyggingu í almenningssamgöngum og sér í lagi þegar kemur að umhverfisþættinum.

Þetta er ekki eingöngu áhersla á (Forseti hringir.) örugga og ábyrga stjórnun opinberra fjármuna heldur líka á (Forseti hringir.) skuldbindingu okkar þegar kemur að umhverfismálum. Þar er Parísarsamkomulagið nýtt og ef við göngumst við þeim skuldbindingum er svo sannarlega (Forseti hringir.) tilefni til að efla almenningssamgöngur hér á þessu fjölmennasta svæði landsins.