146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ferðaþjónustan hefur valdið breytingum á samfélagi okkar og hafa þær breytingar verið af margvíslegum toga, menningarlegum, hagrænum og umhverfislegum. Við þurfum hins vegar að huga að bæði jákvæðum og neikvæðum áhrifum ferðaþjónustunnar á íbúana því að það þarf allt að vera í sátt við samfélagið okkar og heimamenn á hverjum stað. Hér hefur verið minnst á dreifingu ferðamanna. Það hefur augljósa kosti að dreifa ferðamönnum eða sjá til þess að það sé framkvæmanlegt, ekki síst til þess að dreifa álagi á náttúruperlur okkar.

Góðar og öruggar samgöngur eru vissulega mikilvægar til þess að svo geti orðið. Gert var ráð fyrir því í samgönguáætlun en því miður ekki í ríkisfjármálaáætlun eða ríkisfjármálastefnunni, ekki frekar en í fjárlagafrumvörpunum. Það er mikilvægt að skilgreina ferðamannaleiðirnar í hverjum landshluta, þ.e. hvers vegna ferðamenn vilja koma þangað. Þar kom hv. frummælandi inn á markaðssetninguna. Það tel ég afar mikilvægt og fagna því þess vegna að ráðherrann hefur ákveðið að leggja mikla áherslu á þessi mál í ráðuneyti sínu þó að þetta sé þvert á ráðuneyti.

Við þurfum líka að hafa bæði viðhald og uppbyggingu á flugvöllunum í lagi ef við meinum eitthvað með því þegar við segjumst vilja dreifa ferðamönnum, og markaðssetja aðra landshluta en suðvesturhornið. Mér finnst að það eigi að vera aðalmarkmið ráðuneytisins núna og þeirra sem undir ráðuneytið heyra að einbeita sér að því.

Við þurfum líka að búa þannig um ferðaþjónustuna að hún geti starfað með t.d. góðri nettengingu.

Varðandi gistináttagjaldið og aðra skatta þá verða sveitarfélögin að fá tekjur af því. Þau eru mörg lítil, ferðamennirnir skilja ekki mikið eftir sig en áníðslan er mikil. Og við þurfum auðvitað líka að sjá til þess að aukin löggæsla og álagið á heilbrigðisþjónustuna og annað slíkt verði fjármagnað til þess að mæta auknu álagi.