146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hæfnisnefndin sé skipuð jafnt körlum og konum. Þannig á það að vera í öllum hópum sem hið opinbera skipuleggur, hvort sem það eru hæfnisnefndir, millidómstig, Hæstiréttur eða stjórnir og ráð hvar sem þau eru. Það heitir bara að uppfylla jafnréttislög.

Af því að hv. þingmaður talar hér, eins og hv. frummælandi meiri hlutans áðan, um að þetta sé grundvallarbreyting. Nú er ég ekki lögfræðimenntaður eins og þau tvö, en ég sé ekki hver grundvallarbreytingin er. Ef jafnréttislög gilda um dómstólana, hver er þá grundvallarbreytingin að taka skýrt fram í lagatexta um dómstóla að jafnréttislög gildi, eins og gert er í 11. gr. Það var engin grundvallarbreyting. Það var bara ítrekun vegna brota Hæstaréttar á jafnréttislögum.

Er full ástæða til að hafa svona klausu? Já, það er full ástæða til að ítreka að það þurfi að skipa jafnt karla og konur í nýtt dómstig. Þegar verið er að skipa 15 dómara á einu bretti er full ástæða til að tryggja að framkvæmdarvaldið gleymi ekki þeirri skyldu sinni að fara að þessum lögum, eins og Hæstiréttur gleymdi árum saman, þar eiga samt að vera lögfróðir menn, að fara að jafnréttislögum. Þingið þurfti að minna Hæstarétt á það í þessum lögum sem við erum hér að breyta. Það er engin grundvallarbreyting að ítreka það aftur þó gagnvart öðrum aðilum sé.