146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[16:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar að þakka málshefjanda hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir frumkvæði sitt.

Þau drög að eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki sem eru hér til umræðu taka mið af sérstöðu fjármálafyrirtækja eins og kemur fram í drögunum varðandi skipulag eignarhaldsins, varðandi markmiðið með eignarhaldinu og framtíðarsýnina. Það liggur fyrir að ríkið stefnir ekki að því að eiga meiri hluta í fjármálafyrirtækjum á almennum markaði til frambúðar, en í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var áréttað einu sinni sem oftar að þar muni verða vandað til verka og enginn flýtir þar í gangi.

Mig langar að taka fram að þó að ríkið sé núna langstærstur eigandi í fjármálakerfinu og sem slíkur, eins og gjarnan hefur komið fram í umræðunni, í einstakri aðstöðu til að leggja línur varðandi framtíðarþróun, þá er mín skoðun að þær línur og stefna um framtíð fjármálamarkaðar almennt eigi að vera mótuð af stjórnvöldum en ekki eigendum hverjir sem það eru, hvort sem það er ríkið til lengri eða skemmri tíma eða einhver annar. Það er okkar að móta þessa stefnu.

Á síðustu árum hefur verið unnið mikið á síðustu árum og áratug í endurskipulagningu á fjármálakerfinu allt frá því að stóru bankarnir þrír og Íbúðalánasjóður þar með líka voru endurreistir. Líkt og hæstv. ráðherra Benedikt Jóhannesson kom inn á í erindi sínu þá eru engin áform uppi um að breyta neinu í grundvallaratriðum í uppbyggingu bankakerfisins hér.

Eitt af stóru málunum er að halda áfram á þeirri vegferð að tryggja að neytendur beri ekki ábyrgð á fjárfestingarbankastarfsemi sem er í eðli sínu áhættusöm og undanfarin ár hafa verið settar á laggirnar ýmsar nefndir og ráð sem samhliða lagalegri umgjörð gera það að verkum að hægt er að grípa inn í tímanlega þegar þörf krefur.

Að lokum vil ég, frú forseti, taka fram að ég fagna áherslum hæstv. fjármálaráðherra sem hafa komið mjög skýrt fram að undanförnu, ekki bara hér í ræðustól heldur í orðum og aðgerðum, varðandi það umhverfi sem fjármálafyrirtækin (Forseti hringir.) starfa í. Ég nefni sem dæmi viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, reglur um viðbrögð vegna uppljóstrana, auk þess sem á döfinni er frumvarp þar sem kveðið er á um frekara eftirlit og inngrip til að tryggja framfylgni og eftirfylgni laganna í fjármálakerfinu.