146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[16:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur verið hér í dag. Sporin hræða. Það er svo sannarlega rétt. Ég tek undir það með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni að mistökin frá 2003 má alls ekki endurtaka.

Ég ítreka að Alþingi getur sett lög um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka. Ég hygg í ljósi þeirrar umræðu sem við höfum átt í dag að mjög mikilvægt sé að við tökum hana til enda og hugsum hvers vegna við viljum gera það og hvernig við viljum gera þetta. Við skulum ljúka því máli.

Hér er talað um eignarhald á bönkunum. Eignarhald ríkisins á Landsbanka Íslands kom ekki í veg fyrir Borgunarmálið. Það er einfaldlega þannig að ekki eru bein tengsl milli eignar ríkisins og fjármálaráðuneytisins á bönkunum og stjórnar bankanna sjálfra. Þar erum við með Bankasýsluna á milli.

Þegar hv. þingmenn hafa áhyggjur af því að verið sé að selja stóran hlut í bönkunum þá minni ég á það að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vildi á sínum tíma fá leyfi til þess að selja tvo þriðju hluta í Landsbankanum, átti ríkið þó ekki aðra banka á þeim tíma, a.m.k. ekki Íslandsbanka allan eins og nú er.

Ég minni hv. málshefjanda líka á það að ekki var aðskilið milli fjárfestingar- og viðskiptabanka á árunum 2009–2013 þegar hv. þingmaður sat í ríkisstjórn og m.a. með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur.

Að lokum vil ég segja þetta: Hv. þm. Óli Björn Kárason talar um hámark á hlut kjölfestufjárfesta. Ég styð þá hugsun og ég styð þá hugsun sem kom fram í máli margra hv. þingmanna sem hafa tekið hér til máls að mjög mikilvægt er að skapa traust um bankakerfið. Ég hygg að við séum að mörgu leyti sammála. Ég hygg að það traust verði ekki skapað með því að sá fræjum tortryggni.