146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Búum vel að börnum. Barnvænn heimur er góður heimur fyrir alla. Mig langar til að minnast aðeins á að við höfum lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem nokkrar greinar taka sérstaklega til þess máls. Þar er grein um hvað er börnum fyrir bestu. Rétturinn til lífs og þroska. Uppeldi og þroski er mikilvæg grein þar. Heilsuvernd. Lífsskilyrði. Og ekki síst Hvíld og tómstundir. Þar vísa ég einkum í skólatíma. Skólatíminn eins og hann er hannaður núna hentar ekki endilega fyrir börn, hann hentar fyrir fullorðna. Að byrja á slaginu klukkan átta er ekki endilega gott fyrir börnin, það er gott fyrir okkur hin eldri. Það er því að mörgu að huga í því umhverfi sem við erum í núna. Við þurfum að hugsa það upp á nýtt með tilliti til (Forseti hringir.) barnanna en ekki okkar fullorðnu sem eigum auðveldara með að aðlagast.